146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

viðbrögð við skýrslu um Kópavogshæli.

[11:12]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég tek undir orð hennar. Við erum auðvitað öll mjög slegin yfir þessari skýrslu og þeim lýsingum sem þar er að finna og hræðilegt til að hugsa að þarna hafi fatlaðir einstaklingar búið við þessi hörmulegu skilyrði, jafnvel áratugum saman. Ég held að það líði engum vel undir þeim lýsingum eða lestri og fréttaflutningi.

Sem betur fer hefur verið gerð veruleg bragarbót í þessum málaflokki. Við vinnum út frá allt öðrum forsendum í dag í þjónustu við fatlaða einstaklinga en þarna var. Þessi skýrsla endurspeglar viðhorf, fordóma, liðinna tíma, sem betur fer. Þetta er auðvitað svartur blettur eins og aðrar slíkar skýrslur sem við höfum því miður fengið á undanförnum árum um hvernig staðið var að þessum málum en hafa verið okkur mikilvægt leiðarstef til úrbóta á liðnum árum. Það er viðfangsefni sem við þurfum alltaf að keppast við að gera betur í. Á þingmálaskrá ráðuneytisins eru einmitt fjölmörg mál sem m.a. miða að því að bæta enn frekar réttarstöðu fatlaðs fólks.

Varðandi spurninguna um hvort ráðuneytið hafi sett í gang vinnu til að bregðast við tilmælum eða leiðbeiningum sem þarna er að finna þá höfum við óskað eftir fundi með formanni nefndarinnar til þess að fá nákvæma yfirferð á helstu niðurstöðum hennar og munum að sjálfsögðu í framhaldinu skoða hvaða viðbragða hún krefst af hálfu ráðuneytisins. Hvað hyggst ráðuneytið gera til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks? Eins og ég nefndi eru á þingmálaskrá okkar fyrir þetta vor fjölmörg frumvörp um réttindi fatlaðra einstaklinga þar sem við erum að innleiða skuldbindingar okkar samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna og gerum enn frekari úrbætur á réttarstöðu fatlaðra einstaklinga. Til skoðunar er einmitt innan ráðuneytisins að efla eftirlit með þessum málaflokki enn frekar og ég held að niðurstaða liggi fyrir fljótlega.