146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

stefnumörkun í fiskeldi.

[11:17]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ríkisstofnanir hafa verið að gefa út starfs- og rekstrarleyfi til fiskeldisstöðva án þess að framtíðarstefna liggi fyrir eða mat á fyrirliggjandi náttúrunytjum. Nú hafa landeigendur, veiðifélög, æðarbændur, ferðaþjónusta og fuglaverndarfólk miklar áhyggjur af áformum um fiskeldi á Vestfjörðum og sunnanverðum Austfjörðum og telja að umhverfisráðuneytið hafi brugðist skyldu sinni með því að hafa hvorki látið fara fram óháð áhættumat né mat á verndargildi náttúrunnar á áðurgreindum svæðum. Um 2 þús. lögbýli hafa umtalsverðar tekjur af veiðiskap og æðarvarpi og er talið að veruleg eignaverðmæti um 10 þús. fjölskyldna muni verða fyrir óafturkræfu tjóni. Fjölmargar kærur liggja fyrir í stjórnsýslunni og verið er að stofna málssóknarfélag vegna leyfisveitinganna. Nú leita hundruð háskóla og líffræðistofnana í nágrannalöndum okkar leiða til að koma í veg fyrir skaða af völdum fiskeldis í opnum sjókvíum en viðurkenna að lausn á þeim vanda er ekki í sjónmáli.

Auk umhverfisáhrifa er ljóst að efnahagsleg áhrif verða veruleg þar sem núverandi atvinnugreinar eins og stangveiði og æðarvarp munu verða fyrir neikvæðum áhrifum. Umfangsmikið sjóeldi mun rýra ímynd Íslands sem eftirsóknarvert laxveiðiland ef sama erfðamengun á sér stað hér á landi og hefur orðið t.d. í Noregi.

Fiskeldi hér er í eigu erlendra aðila, m.a. aflandsfélaga, og má áætla að bróðurpartur hagnaðarins fari úr landi. Verði af áformum fjárfesta er tekin áhætta með stórfellda lífræna mengun af saur sem drepur æðarvörp og fóðurleifum, smitsjúkdóma og sníkjudýr auk erfðamengunar í villtum laxfiskum í ám landsins.

Með þetta í huga spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er afstaða umhverfisráðherra í fiskeldismálum? Hyggst hæstv. ráðherra fara í stefnumótun í fiskeldi? Telur hæstv. ráðherra mikilvægt að fram fari óháð áhættumat vegna fyrirhugaðs eldis og mat á verndargildi náttúrunnar eins og náttúruverndarlög kveða á um?