146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

stefnumörkun í fiskeldi.

[11:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir fyrirspurnina, hún er mjög brýn. Ég get sagt það hreint út að ég hef talsverðar áhyggjur af laxeldi en hef líka sagt það og segi hér aftur að mín sýn á alla framleiðslu og atvinnuuppbyggingu, hvort sem það er laxeldi eða eitthvað annað, er að starfsemin geti aðeins verið leyfð ef hún stenst kröfur um verndun umhverfis og náttúru. Til þess að reka fiskeldi þarf bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun sem heyrir undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfið. Það er því ljóst að samtal milli þessara ráðuneyta, míns ráðuneytis og ráðuneytis sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þarf að vera mikið. Nú þegar hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sett á stofn hóp sem er að kanna þessi mál með embættismenn frá mér og frá ráðuneyti hennar, svo eru þarna líka að mér skilst aðilar frá framkvæmdastjórn um laxeldi eða eitthvað álíka, en mér finnst að þarna eigi líka að vera einhver frá umhverfisverndarsamtökum. Ég hef í huga að við könnum það að breyta aðeins þessari samsetningu en mun gera það í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ef hún er fús til þess. Ég á ekki von á öðru.

Hv. þingmaður taldi hér mjög vel upp áhyggjur af laxeldi. Ég vil að það komi skýrt fram að ekki er veitt leyfi nema þær stofnanir sem sjá um þessi mál telja að öllu sé óhætt. En mér finnst samt þörf á því að fara í heildstæðara mat og stefnumótun eins og verið er að gera (Forseti hringir.) um þessa atvinnugrein svo að við séum örugglega örugg með að þessi atvinnurekstur verði í samræmi við umhverfis- og náttúruvernd.