146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

reglur um atvinnuleysisbætur.

[11:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli ekki með því að menn grípi inn í kjaradeilur yfir höfuð. En við þessar aðstæður tel ég eðlilegt að stjórnvöld komi að þessu máli með jákvæðum formerkjum. Síðasta ríkisstjórn talaði með jákvæðum hætti um að gera fæðispeninga skattfrjálsa, líkt og aðrir opinberir starfsmenn og stéttir sem eru fjarri heimilum sínum hafa í dag. Það er allt annar hlutur en að grípa inn í með einhverjum hætti, svo sem lagasetningu sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur talið eðlilegt, eins og gagnvart flugumferðarstjórum á sínum tíma. Kjarasamningar eru lausir í vor og ég tel að nú ættu menn að sýna þann dug að koma með jákvæðum hætti að vinnumarkaðsmálum, eins og að lengingu atvinnuleysisbótatímabilsins og hækkun atvinnuleysisbóta til samræmis við kaupmáttaraukningu lágmarkslauna í landinu. Það er gífurlega mikið undir í sjávarbyggðum landsins þar sem á heimilum eru bæði sjómaðurinn og fiskverkakonan orðin atvinnulaus og lítil og meðalstór fyrirtæki eru að fara í gjaldþrot. Menn geta því ekki bara setið og hallað sér aftur og ekki gert neitt.