146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[11:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Frumvarpinu er ætlað að tryggja og/eða styrkja lagastoð fyrir innleiðingu fimm Evrópureglugerða á sviði flutninga á landi sem nú þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn og hefur Alþingi þegar fjallað um fjórar þeirra á fyrri stigum innleiðingarferlisins. Þrjár þessara gerða fjalla um aðgengi að bæði farþega- og farmflutningamarkaðnum, þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og eftirlit með slíkri starfsemi. Þá fjallar fjórða gerðin um réttindi farþega í hópbifreiðum og sú fimmta og síðasta fjallar um heimildir til að semja um skyldur um opinbera þjónustu í tengslum við almenna farþegaflutninga á vegum.

Í innanríkisráðuneytinu hefur nú um nokkurt skeið verið unnið að heildarendurskoðun þeirra lagabálka er snúa að farþega- og farmflutningum á landi. Var gert ráð fyrir innleiðingu þeirra Evrópugerða sem hér um ræðir í þeirri vinnu. Afrakstur þeirrar vinnu voru tvö ný frumvörp sem lögð voru fram á 144. löggjafarþingi, annað um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni og hitt um farmflutninga á landi. Frumvörpin hlutu ekki afgreiðslu í þinginu og hafa ekki verið endurflutt. Eftir stendur samt sem áður skylda íslenska ríkisins til að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Þannig er það frumvarp sem hér er mælt fyrir tilkomið.

Frumvarpið er samið í innanríkisráðuneytinu. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga sem leysa munu af hólmi lög um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001. Rétt er þó að taka fram að þrátt fyrir að hér sé um að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga inniheldur það engar efnisbreytingar aðrar en þær sem leiða af áðurnefndum Evrópugerðum.

Þannig var við undirbúninginn lagt af stað með hreint innleiðingarfrumvarp í formi breytingarfrumvarps, en við vinnuna kom í ljós að breytingarnar eru það viðamiklar að skýrara væri að leggja fram heildarfrumvarp þar sem einungis þær breytingar væru gerðar á núgildandi lögum sem leiða af innleiðingu þessara gerða.

Ég mun nú fjalla um þær breytingar á núgildandi lögum sem lagðar eru til með frumvarpinu í þeirri röð sem þær koma fyrir.

Í I. kafla eru almenn ákvæði um gildissvið, stjórnsýslu og helstu orðskýringar. Þær breytingar eru lagðar til í 1. gr. að gildissvið laganna varðandi farmflutninga verði þrengt nokkuð frá því sem er í núgildandi lögum. Fjallað er um farmflutninga í reglugerð Evrópusambandsins nr. 1071/2009 og gerir sú reglugerð ráð fyrir að heimilt sé í aðildarríkjum að veita tilteknar undanþágur frá ákvæðum hennar. Hér er því farin sú leið að undanþiggja ákvæðum laganna alla þá farmflutninga sem heimilt er samkvæmt reglugerðinni. Litið er svo á að gildissvið laganna sé þannig gert eins þröngt og skuldbindingar íslenska ríkisins að EES-rétti heimila, enda kalli innlendir hagsmunir með engum hætti á víðara gildissvið.

Í 2. gr. þar sem fjallað er um hlutverk stofnana ríkisins samkvæmt lögum er að finna einu tillöguna að breytingu á núgildandi lögum sem ekki verður leidd af Evrópureglum. Ákvæðið er efnislega samhljóða ákvæði gildandi laga um hlutverk ráðherra og Samgöngustofu. Hins vegar er í gildandi lögum einnig gert ráð fyrir að Vegagerðin fari, ásamt Samgöngustofu, með hlutverk við framkvæmd laganna. Svo er hins vegar ekki og hefur ekki verið. Eina hlutverk Vegagerðarinnar samkvæmt gildandi lögum og þá samkvæmt þessum lögum er að fara með skipulag almenningssamgangna. Því er lagt til að lögin kveði skýrt á um þá verkaskiptingu.

Loks er í 3. gr. lagt til að tiltekin hugtök úr Evrópugerðum eða sem tengjast útfærslu þeirra í ákvæðum frumvarpsins séu tekin upp í orðskýringum. Um er að ræða hugtökin almenningssamgöngur, biðstöð, einkaréttur, flutningastjóri, flytjandi og miðstöð. Þá er orðinu fólksflutningar hvarvetna í frumvarpinu breytt í farþegaflutningar.

Í II. kafla frumvarpsins sem fjallar um leyfisveitingar eru skilyrði almenns rekstrarleyfis, sem er leyfi sem allir þurfa að hafa til að geta stundað flutninga á vegum, færð til samræmis við kröfur Evrópuregluverksins. Þannig er hnykkt á þeirri kröfu að leyfishafi skuli hafa gott orðspor, og þá er gerð sú krafa að leyfishafi sem sækir um leyfi til íslenskra stjórnvalda hafi staðfestu hér á landi sem er virk og traust. Þessar breytingar er að finna í 5. gr.

Þá er í 6. gr. að finna nýmæli sem ekki er í gildandi lögum. Þar er fjallað um þá kröfu að flutningsaðilar tilnefni flutningastjóra og hvaða skilyrðum hann þarf að fullnægja, en þau skilyrði eru í raun sambærileg við þau skilyrði sem eru í dag sem gert er ráð fyrir að forsvarsmaður flutningafyrirtækja fullnægi.

Í 7. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um einkarétt til að skipuleggja almenningssamgöngur á tilteknum svæðum, leiðum eða leiðakerfum og með hvaða skilyrðum slíkur einkaréttur verður veittur. Sambærilegt ákvæði er að finna í 7. gr. núgildandi laga en þar er talað um einkaleyfi í stað einkaréttar. Engin breyting verður á inntaki einkaréttarins með þessari orðalagsbreytingu. Þó er í 2. mgr. að finna nýmæli í lögum en þar eru sett tiltekin skilyrði fyrir veitingu einkaréttar samkvæmt ákvæðinu. Gert er ráð fyrir því að einkaréttur verði einungis veittur ef sýnt er fram á að þjónusta í reglubundnum farþegaflutningum á viðkomandi svæði sé nauðsynleg vegna almennrar, efnahagslegrar þýðingar hennar og að hún verði ekki rekin á viðskiptagrundvelli svo lágmarksþjónusta sé tryggð. Samkeppni á að fá að halda sér þar sem hún er þegar fyrir hendi. Þá er það skilyrði fyrir veitingu einkaréttar að Vegagerðin hafi látið fara fram kostnaðar- og samkeppnismat þar sem tekið hefur verið tillit til sannanlegrar nauðsynjar á opinberum fjárframlögum á viðkomandi svæði. Rétt er að árétta að þótt hér sé um að ræða nýmæli í lögum eru þetta ekki nýmæli í íslensku regluverki enda eru þessar breytingar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í Evrópureglugerð 1370/2007 og innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 128/2011.

Í 3. mgr. er svo mælt fyrir um skylduna til að úthluta reglubundnum farþegaflutningum á grundvelli einkaréttar með útboði. Nánar er fjallað um þá útboðsskyldu og gerð samninga um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga í IV. kafla frumvarpsins.

Í 11. gr. núgildandi laga er að finna ákvæði um útgáfu samevrópsks flutningaleyfis til þeirra sem hyggjast stunda flutninga milli landa innan EES-svæðisins. Sambærilegt ákvæði er að finna í 10. gr. þessa frumvarps. Þar er jafnframt að finna nýmæli þar sem kveðið er á um heimild Samgöngustofu til að gefa út svokallað ökumannsvottorð til flytjanda sem ráðið hefur til sín ökumann sem hvorki er ríkisborgari innan EES né hefur þar fasta búsetu. Í ákvæðinu er að finna heimild til ráðherra til að kveða nánar á um þessi evrópsku flutningaleyfi og ökumannsvottorð. Er þannig gert ráð fyrir innleiðingu Evrópugerða um þetta efni.

Rétt er að taka fram að vegna landfræðilegrar legu Íslands hefur þetta ákvæði og þær reglugerðir sem settar verða á grundvelli þess afar takmörkuð áhrif hér á landi.

Þær breytingar sem lagðar eru til í III. kafla frumvarpsins er að finna í 12. gr. þar sem lagðar eru til þó nokkrar breytingar frá gjaldtökuákvæðinu sem er að finna í 13. gr. núgildandi laga. Gjaldtökuheimild Samgöngustofu í núgildandi lögum kveður á um tilteknar fjárhæðir fyrir ákveðin leyfi. Í ákvæði þessu er hins vegar gert ráð fyrir að Samgöngustofa setji gjaldskrá vegna framkvæmdar laganna. Sú gjaldskrá sé svo staðfest af ráðherra. Þetta fyrirkomulag er í mun betra samræmi við gjaldtökuheimildir í lögum í dag og veitir eðlilegt svigrúm fyrir stofnunina til að tryggja að gjaldið endurspegli raunverulegan kostnað ríkisins við þjónustuna.

Virðulegur forseti. Þá erum við komin að IV. kafla frumvarpsins sem fjallar, eins og ég hef áður minnst á, um samninga um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga. Þar er lagt til að lögfestar verði í þremur ákvæðum þær meginreglur um samninga um opinbera þjónustu sem er að finna í Evrópureglugerð nr. 1370/2007 og innleidd var í íslenskan rétt á sínum tíma með reglugerð. Lögfesting þessara meginreglna er til þess fallin að koma í veg fyrir réttaróvissu, einkum og sér í lagi þar sem samningar sem þessir geta falið í sér verulegar takmarkanir á frjálsri samkeppni á sviði almenningssamgangna.

V. kaflinn er allur nýr, en engin ákvæði er að finna í núgildandi lögum um réttindi farþega í hópbifreiðum. Ákvæðum kaflans, nánar til tekið 16.–21. gr., er ætlað að tryggja lagastoð fyrir innleiðingu Evrópureglugerðar nr. 181/2011 sem þegar hefur hlotið ítarlega meðferð í þinginu á grundvelli 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-reglna. Í kaflanum er m.a. fjallað um rétt farþega til upplýsinga og aðstoðar ef seinkun verður á ferð, bótarétt þeirra ef óhapp verður, rétt þeirra til að kvarta til Samgöngustofu telji þeir flytjanda hafa brotið á réttindum þeirra o.s.frv. Reglurnar eru ekki frábrugðnar þeim reglum sem nú þegar gilda um réttindi flugfarþega og hefur samráð við hagsmunaaðila leitt í ljós að reglurnar verði ekki taldar leggja óþarflega íþyngjandi kvaðir á flutningsaðila. Rétt er að taka fram að ákvæði kaflans verða aldrei túlkuð á þann veg að þau takmarki þann bótarétt sem farþegar í hópbifreiðum kunna að eiga samkvæmt almennum reglum íslensks skaðabótaréttar. Þá geta farþegar aldrei notið lakari réttar en sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að Evrópureglugerð nr. 181/2011 verði innleidd í heild í reglugerð, en rétt þótti í ljósi efnisins að lögfesta helstu ákvæði hennar.

Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um eftirlitsheimildir stjórnvalda og úrræði þegar brotið er gegn ákvæðum frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir ákveðnu stjórnsýslueftirliti af hálfu Samgöngustofu og einnig eftirliti á vegum af hálfu lögreglu. Við framkvæmd gildandi laga hefur komið í ljós að erfitt hefur reynst fyrir þær stofnanir sem farið hafa með eftirlit með flutningagreininni á gildistíma laganna að halda uppi eftirliti auk þess sem þau úrræði sem stofnanir hafa haft til að bregðast við brotum hafa verið af mjög skornum skammti. Þannig hefur reynst erfitt að tryggja rétt þeirra aðila sem stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt lögunum.

Í Evrópureglugerðum nr. 1071/2009, 1072/2009 og 1073/2009 er gert ráð fyrir að aðildarríkin komi á fót skilvirku eftirliti og viðurlagakerfi. Þá er gerð krafa um að stjórnvöldum séu veitt úrræði eins og heimild til afturköllunar og niðurfellingar flutningsleyfa ef brotið er gegn ákvæðum löggjafarinnar. Ákvæðum þessa kafla er ætlað að uppfylla þessar skyldur íslenska ríkisins. Skyldunni um að koma á fót eftirlitskerfi með viðurlögum sem eru skilvirk í réttu hlutfalli við brotið og hafa varnaðaráhrif er fullnægt í 29. gr. frumvarpsins. Ákvæði um sektir er einnig að finna í núgildandi lögum en þykir fremur óskýrt. Þá verður ekki talið sérstaklega letjandi fyrir flutningsaðila í miklu rekstri að hámarksfjárhæð sektar sé 100.000 kr. eins og nú er gert ráð fyrir. Í samræmi við meginregluna um skýrleika refsiheimilda var ákveðið að setja í lögin skýrari refsiheimild með tilvísun til þeirra ákvæða laganna sem geta varðað refsingu. Þá þykir rétt bæði til að auka varnaðaráhrif ákvæðisins en einnig til að tryggja samræmi milli refsiheimilda og beitingu þeirra að eftirláta dómstólum ákvörðun refsinga á grundvelli laganna.

Þá erum við komin að lokaákvæðum frumvarpsins. Þar er að finna nýmæli í 31. gr. þar sem fjallað er um skyldu Samgöngustofu til að halda rafræna landsskrá yfir þá rekstraraðila sem stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Gert er ráð fyrir því í Evrópuregluverkinu að hvert aðildarríki haldi slíka skrá. Í þessari skrá skulu vera upplýsingar um heiti fyrirtækis og rekstrarform þess, heimilisfang, nöfn flutningastjóra og fyrirsvarsmanna, fjölda ökutækja sem starfsleyfið tekur til og fjölda, flokk og tegund alvarlegra brota sem leitt hafa til sakfellingar eða annarra viðurlaga. Rafrænar skrár sem þessar og samþykki þeirra milli Evrópuríkja hefur þegar verið komið á fót í öðrum aðildarríkjum á EES-svæðinu og er tilgangur þeirra að draga úr stjórnsýslukostnaði við eftirlit og bæta skilvirkni eftirlitsins. Ljóst er að skráin hefur takmarkað gildi hér á landi þar sem lítið er um að flutningsaðilar annarra landa séu hér við akstur eða öfugt, en íslenska ríkinu ber engu að síður skylda til að uppfylla þessa kröfu.

Að þessu mæltu, virðulegi forseti, hef ég lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.