146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[11:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum framsöguna, sem mér reiknast til að sé sú fyrsta síðan hann tók við embætti. Í því ljósi er áhugavert að um sé að ræða innleiðingu á Evrópuregluverki. Jafnvel myndu stríðnir menn segja að ráðherrann væri farinn að beygja sig nokkuð mikið undir Brussel-valdið með því að breyta sjálfri íslenskunni í þessu frumvarpi þannig að nú eigi ekki lengur að tala um fólksflutninga heldur farþegaflutninga, með leyfi forseta, „enda í betra samræmi við orðalag EES-gerðanna“.

En sá sem hér stendur er ekki stríðinn maður og mun því ekki gera mál úr því.

Það er mikil pressa á að klára þetta mál, eins og kemur fram í greinargerð og máli ráðherrans. Eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt að Íslandi verði stefnt fyrir EFTA-dómstólinn verði það ekki innleitt. En í því ljósi er enn mikilvægara að vel sé til vandað því að það sama yrði uppi á teningnum við ranga innleiðingu.

Mig langar að spyrja sérstaklega út í 15. gr. frumvarpsins þar sem segir að yfirvöld skuli að jafnaði bjóða út rekstur reglubundinna farþegaflutninga á sínu svæði. Það þykir mér ekki endurspegla þann anda sem birtist í reglugerðinni sjálfri. Þá vísa ég til reglugerðar 1370/2007 þar sem segir í 18. gr. inngangsins að þessi yfirvöld geti valið, með leyfi forseta, „að veita sína eigin almennu farþegaflutningaþjónustu á svæðinu sem þau stjórna eða falið innri rekstraraðila að sjá um hana án samkeppnisútboðs.“

Mér þykir þessu snúið aðeins á haus þannig að pressa eykst á sveitarstjórnir að bjóða út þessa almenningsþjónustu. Í því ljósi vil ég spyrja ráðherra út í samráð það sem haft var við Strætó og Samband íslenskra sveitarfélaga, líkt og fram kemur í frumvarpinu, (Forseti hringir.) þar sem ekki reyndist unnt að verða við þeim athugasemdum sem frá þeim lykilaðilum komu.

Ég vil spyrja ráðherrann: Að hverju sneru þessar athugasemdir og hví er ekki tekið tillit til þeirra?