146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[11:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég byrji á þeim athugasemdum sem hv. þingmaður vitnaði til þá vitum við að ferðaþjónustan hefur gert athugasemdir sem eru að okkar mati ekki mjög róttækar og við teljum að sé mjög eðlilegt að teknar verði upp í vinnu nefndarinnar. Valin var sú leið í ráðuneytinu að fara í hreina innleiðingu á málinu og vera ekki að flækja það með því að setja inn í málið önnur atriði en þau sem snúa beint að innleiðingu þess, en að fela þá nefndinni að taka við athugasemdum sem þessum og gera viðbótarbreytingar ef samstaða um slíkt næst.

Eins og fram kom í máli hv. þingmanns er ráðherra heimilt samkvæmt 15. gr. að setja nánari reglugerð um framkvæmd og fyrirkomulag þeirra útboða sem almennt er talið að geti orðið reglan hjá sveitarfélögum. Það er aftur á móti ekkert í þessum lögum sem bannar sveitarfélögum að annast sjálf þessa þjónustu, taka ákvörðun um það. Það má vel vera að það verði niðurstaðan hjá einhverjum, en talið er að almenna reglan verði sú að þetta verði þjónusta sem verði þá boðin út samkvæmt þeim reglum sem um það verða settar.