146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi hér í upphafi að hún væri ekki búin að lesa frumvarpið í smáatriðum. Ég skil það vel, það er dálítið flókið að setja sig inn í þetta mál. Ég hef átt fullt í fang með það og svo er ég með her aðstoðarmanna til að hjálpa mér að ná vel utan um það. Við höfum fundað nokkuð mikið um þetta mál og ég hef verið að reyna að ná góðri sýn á það. Ég hef ágætistilfinningu fyrir því. Ég vona að það muni verða þannig í málsmeðferðinni hér á þingi að við nálgumst málið með þeim hætti að um það geti ríkt nokkuð víðtæk sátt.

Þetta er viðkvæmt mál sem hv. þingmaður nefnir, en það er sérstakt viðurlagaákvæði í frumvarpinu sem á að skerpa á þessum málum. Lögregla fer með eftirlit á þessu samkvæmt lögunum. Við teljum því að við höfum náð mjög vel utan um þennan þátt málsins og að það sé alveg skýrt að verði brotið á einkaleyfi, t.d. með því að reyna að tína upp farþega á þeim leiðum þar sem betri afkoma er og fjölmennari (Forseti hringir.) verði tekið á því af fullri hörku.