146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[12:31]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Til hamingju með stöðuna í forsetastóli.

Ég ætla ekki að orðlengja þessar umræður mjög en auðvitað er gott að sjá þetta frumvarp koma fram og ber að þakka það. Þetta eru 34 greinar og 17 síðna greinargerð og mér sem nefndarmanni í umhverfis- og samgöngunefnd hefur veist dálítið erfitt að ná utan um þetta. Auðvitað þarf að gefa betri tíma, meiri fyrirvara, jafnvel til 1. umr. en gert er gjarnan með frumvörp. Ég hef rekist á þetta áður hér og held að það væri eflaust hægt að hægja aðeins á í mörgum tilvikum. Við þyrftum eiginlega að vera einhvers konar súpermenn með röntgenlesgleraugu til þess að ná að fylgjast með þessu og setja okkur inn í mál. Þegar verið er að skoða svona frumvarp leitar maður að aðalatriðunum. Í þessu tilviki er þetta einkaréttur í farþegaflutningum, þá er hlutfall opinberrar þjónustu í þeim efnum og svo þjónusta fyrirtækja á viðskiptagrundvelli. Svo eru mjög flókin og fjölmörg skilyrði sem eiga að veita neytendum ákveðna vernd. Ég verð að játa það að það er mikil lúsaleit að ná yfir þetta. En gott og vel.

Þessu frumvarpi er ætlað að tryggja góða þjónustu. Við sem höfum notað almenningsfarartækjaþjónustu á Íslandi vitum að hún er ákaflega hnökrótt. Það er auðvitað ekki efni þessa frumvarps sjálfs heldur snýr það að framkvæmdaaðilum. Ég get nefnt sem dæmi að fari menn frá Reykjavík til Stykkishólms þá eru leggirnir þrír. Það þarf að skipta um bíl. Bílarnir fara hvor í sína áttina. Það eru engar upplýsingar til farþega. Ég hef orðið vitni að mjög spaugilegum ferðum sem taka þrjá til þrjá og hálfan tíma með erlendum ferðamönnum sem eru á hlaupum vegna þess að þeir botna hvorki upp né niður í kerfinu.

Á Suðurlandi, á það minntist hv. þm. Ásmundur Friðriksson, sem er stórt landsvæði, eru margir vegir, margar leiðir. Þar eru ferðir of fáar á hverjum sólarhring og eins eru þær ekki nægilega sniðnar eftir þörfum notenda. Það á sérstaklega við um skólanema, framhaldsskólanema eins og nemendur í framhaldsskólanum á Selfossi. Það er alveg augljóst að farþegaflutningar á landi af þessu tagi kalla á sífellda endurskoðun þjónustunnar og mikið samráð við bæði notendur og sveitarfélögin sem halda utan um t.d. strætó. Mig langar að hvetja hæstv. ráðherra og ráðuneytið og sveitarstjórnir ef þær heyra til mín hér að hyggja að þessu verkefni sem er svona mikilvægt eins og aðrir hafa komið inn á hér.

Þetta er mikilvægt umræðuefni. Inn á þetta koma líka rekstrarforsendur. Það er orðið ljóst hér á Íslandi vegna smæðar samfélagsins og hversu landið er stórt að niðurgreiðslur alls konar eru býsna mikilvægar til þess að halda uppi vitibornu kerfi. Ávinningurinn af niðurgreiðslum, hvort það er strætó eða eitthvað annað, kemur fram í sparnaði annars staðar, allir þekkja það með götur og vegakerfi en síðast en ekki síst í loftslagsmálum. Við gleymum því gjarnan að tengja gott almannaflutningskerfi inn í loftslagsmálin. Minni losun er ákaflega mikilvæg. Hún er ávinningur og þótt hún sé ekki fjárhagslegur ávinningur í beinhörðum peningum er þetta mikill peningur.

Ræða mín er því meira áminning um að leggja málin fyrr fram svo við getum sett okkur betur inn í þau. Svo er hitt að tryggja það virkilega að hér séu almenningssamgöngur, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig úti á landi, með nokkuð góðum skikk þannig að við getum raunverulega kallað þær almenningssamgöngur.