146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[13:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir framsöguna og styð þetta máls heils hugar, hefði alveg viljað vera meðflytjandi á þessu máli.

Mig langaði að vekja ákveðna athygli á því að þó svo að við fellum niður þetta ákvæði þá berum við áfram ábyrgð á orðum okkar. Ábyrgðinni er bara ekki framfylgt með lögum. Þegar við tölum úr ræðustóli eða tjáum okkur í ræðu eða riti þá leggjum við nafn okkar að veði. Þegar við veljum orð til þess að lýsa öðru fólki þá er það bara á okkar persónulegu ábyrgð.

Í umhverfi nafnleysis sem er mjög algengt núorðið þá er þetta náttúrlega enn þá flóknara og spurning hvernig við eigum að elta fólk í þeim aðstæðum.

Einnig var ég að pæla í hvort þetta ætti eitthvað við fyrri leiðtoga. Ef ég myndi segja um Adolf Hitler núna, „Adolf Hitler er blóðhundur“, væri ég þá í vondum málum? Ég veit það ekki. Er ég ekki í vondum málum af því að almennt séð er hann ekki svo mikils virtur? Er það sanngjarnt að lögin taki tillit til þess hvort þetta sé slæmur maður eða góður maður eða því um líkt? Það var sú pæling sem ég var með, hvaða áhrif þetta hefði til framtíðar, ef ég hefði t.d. gagnrýnt Trump áður en hann varð forseti en ekki eftir á eða eftir að hann er hættur að vera forseti, hvaða áhrif þetta hefði þá.