146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef heyrt af þessum tillögum menntamálaráðuneytisins og heyrt vel af þeim látið en verð að viðurkenna að ég hef sjálf ekki kynnt mér þær nægilega vel. Hins vegar veit ég að samflokksmenn mínir eru vel inni í þessum málum og þeir munu hugsanlega koma betur inn á þau hér á eftir. En ég verð kannski að víkja aðeins að orðum hv. þingmanns í upphafi ræðu hans um að það lægi kannski ekkert sérstaklega mikið á að laga þetta núna. Ég ítreka einfaldlega þau sjónarmið sem ég tók fram áðan, sem eru að það veldur ákveðinni réttaróvissu borgaranna að hafa lagabókstaf sem ekki er notaður alla jafna en gæti hins vegar verið beitt við t.d. óþægilega pólitíska andstæðinga, því skjótt skipast veður í lofti. Það er alltaf gott að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar kemur að borgararéttindum einstaklinga.

Mér þykir mjög mikilvægt að borgararéttindi hafi ákveðinn forgang og að þeim sé veitt brautargengi eins oft og verða má. Ef þessar tillögur fela í sér að fella úr gildi þetta ákvæði þá held ég að við hljótum að geta tekið forskot á sæluna og fellt það út nú þegar og tekið svo afganginn með tillögum menntamálaráðuneytis.