146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta frumvarp og sömuleiðis fyrir þær góðu umræður sem hafa komið fram bæði í ræðum hv. þm. Pawels Bartoszeks og Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur.

Það sem mig langar til að rekja er að það hefur hingað til verið skilningur þeirra sem starfa í alþjóðlegum stjórnmálum að það skuli ríkja ákveðin kurteisi. En núna virðist öldin vera önnur. Ljóst er að tími diplómatískrar kurteisi er liðinn með valdatöku Trumps. Hann hefur ítrekað gengið þvert yfir allar línur, bæði í fjölmiðlum og í samtölum við erlenda ráðamenn. Og hann má það, þótt það sé auðvitað æskilegt að hann geri það ekki. Diplómasía nær auðvitað ekki tilætluðum árangri nema menn komi vel fram hver við annan. Þingmenn komast sömuleiðis upp með að segja jafnvel frekar ljóta hluti úr þessum ræðustól, hluti sem almenningi er strangt til tekið bannað. Ég gæti t.d. sagt að Ilham Alíjev, forseti Aserbaídsjans, sé gunga fyrir að hafa ekki þorað að mæta fyrir Evrópuþingið í gær til að gera grein fyrir því hvers vegna hann hefur ítrekað staðið fyrir fangelsun á rannsóknarblaðamönnum. Ég gæti sömuleiðis sagt að Duterte, forseti Filippseyja, sé aumingi vegna þess hvernig hann bregst við gagnrýni á það að hann fyrirskipi miskunnarlausa slátrun fólks. Ég gæti sagt að Kim Jong-un sé vitleysingur því að hann sóar takmörkuðum auðlindum lands síns og þjóðar sinnar í að smíða kjarnorkuvopn og byggja upp herafla meðan þjóðin þjáist og sveltur. Ég gæti sömuleiðis sagt einhverja ljóta hluti um Theresu May, sem breska þjóðlagasöngkonan Grace Petrie gerði reyndar kannski fyrir hönd okkar allra þegar hún benti á að Theresa May hefði skoðanir um fjölskylduform sem ættu ekkert erindi við samtímann. Ég gæti allt þetta. Ég ætla að láta það samt ógert því að það er kannski ekki viðeigandi. Maður á náttúrlega að reyna að halda einhverri diplómatískri kurteisi. Sömuleiðis ætla ég að láta ógert að tala um Pútín eða Trump eða Mugabe, um dos Santos og Al Khalifa og Lúkasjenkó, Nazarbajev og Castro, alla þessa menn. Ég ætla líka að sleppa því að tala um al-Sisi og Mbasogo, svo ég reyni að bera það rétt fram, og alla hina erlendu þjóðhöfðingjana sem koma illa fram við sitt fólk, þjóðir sínar, embætti sín og hlutverk, og koma illa fram við mannkynið.

Vandinn við svo mörg kurteisislög sem má finna í almennum hegningarlögum í dag er að þau setja réttmætri gagnrýni og pólitískri orðræðu í samfélaginu mjög óeðlilegar skorður. Sem dæmi má nefna þegar Jiang Zemin kom til Íslands, það þótti móðgun við forsetann að hann sæi yfir höfuð til iðkenda Falun Gong sem mótmæltu því ofbeldi sem þeir voru ítrekað beittir af kínverska ríkinu. Hvers konar móðgunargirni er það þegar það þarf allt í einu að stilla upp rútum fyrir framan forseta svo þeir sjái ekki til fólksins?

Það er mjög margt í almennum hegningarlögum sem er tímaskekkja og ætti í raun að hafa verið tímaskekkja á sínum tíma, árið 1940, þegar þau voru sett. Þessi lög sem refsa fólki í þeim tilgangi að hlífa viðkvæmum egóum þjóðhöfðingjanna, hvort sem þeir eru harðstjórar eða lýðræðislega kjörnir, nema hvort tveggja sé, ganga út frá þeirri ranghugmynd, þeirri vitleysu, að valdhafar séu á einhvern hátt hafnir yfir gagnrýni. Svo er ekki. Alls ekki. Þótt það megi kannski gagnrýna þá málefnalega er það hvers og eins að meta hvað er málefnalegt hverju sinni, það er ekki fyrir dómstóla að ákveða. Hvílíkur harmleikur sem það einmitt yrði fyrir bókmenntir heimsins ef þau lög sem eru í gildi á Íslandi væru í gildi alls staðar. Pælið í því. Það væri alveg rosalegt.

Ein hættan við þessi lög er að þau gætu takmarkað háð. Það finnst mér mjög mikilvægt að við leiðréttum. Þættir á borð við Saturday Night Live og South Park, sem ganga beinlínis út á það að gera lítið úr stórmennum, gætu tæknilega séð verið bannaðir á Íslandi vegna þessara laga ef einhver reyndi að fylgja því eftir. Stundum hafa jafnvel íslenskir sjónvarpsþættir og dægurefni, útvarpsþættir og fleira, komist ansi nálægt því að stíga yfir þessa línu, rétt eins og Spaugstofan sem á sínum tíma gengu yfir þá línu sem ekki þótti viðeigandi að mati einhverra, að móðga hinn kristna guð. Sú handvömm var að vísu leiðrétt á síðasta þingi þegar frumvarp hv. Pírata Helga Hrafns Gunnarssonar um afnám banns við guðlasti var hleypt í gegn og samþykkt.

Maður spyr sig hvers konar lagarammi það sé þegar allt í einu er orðið heimilt að gera gys að guðum en ekki harðstjórum. Árið 2010 samþykkti Alþingi einróma að þessu öllu ætti að breyta, þetta ætti allt saman að laga, og frumvörp til að laga ekki bara þetta atriði heldur fjölmörg önnur atriði um alla kurteisislöggjöfina hafa legið uppi í menntamálaráðuneyti í svolítinn tíma. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um hvernig standi á því að þessi frumvörp eru ekki komin fram og vænti ég góðra svara um það. Ég vænti þess líka að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir reki þau mál nánar í ræðu sinni á eftir.

Ég vona að þetta tiltekna frumvarp sem nú er til umræðu komist hratt og örugglega í gegnum þingið, enda er það svo sem ekki neitt annað en borðleggjandi, en það væri kannski enn betra að fá fram þau fjögur frumvörp um úrbætur á tjáningarfrelsi Íslendinga sem í augnablikinu safna ryki í menntamálaráðuneytinu vegna aðgerðaleysis þáverandi hæstv. menntamálaráðherra á síðasta þingi. Ég myndi helst vilja að þau frumvörp og reyndar fleiri sem hafa verið í þróun en eru ekki tilbúin hljóti öll brautargengi hið snarasta.

Frú forseti. Ég kemst upp með margt úr þessum ræðustól sem leyfist ekki almennt í samfélaginu. Ég reyni að vísu að stilla því í hóf hvernig ég beiti þeim rétti, því að við eigum að passa upp á hina diplómatísku kurteisi, en mér finnst mikilvægt að við jöfnum svolítið rétt þingsins versus almennings hvað varðar móðgunargirni og kurteisiskröfur. Kurteisi á að vera afstaða sem fólk kýs að sýna af fúsum og frjálsum vilja, afstaða sem fólki finnst rétt að viðhafa vegna þess að viðmælendur þess hafa áunnið sér virðingu, þetta á ekki að vera regla sem fólki er skylt að fylgja. Ýmsir þjóðhöfðingjar nútímans eiga því miður enga virðingu skilið, það er bara staðreynd. Við skulum ekki með okkar vondu löggjöf halda hlífðarskildi yfir þeim.