146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég fagna þeim breytingum á lögum sem hér hafa verið lagðar fram en hefði, eins og áður hefur komið fram í ræðu annarra hv. Pírata, viljað sjá það gert á heildrænan hátt. Það er svolítið bagalegt að við séum í þeirri stöðu að vera hægt og bítandi að reyna að laga eina og einn ágalla á lögum sem eru meingölluð. En fyrst frumvarpið úr menntamálaráðuneytinu hefur ekki enn verið lagt fram á þingi tel ég fulla ástæðu til þess að við afgreiðum þetta mál sem allra fyrst og óþarfi að bíða fram eftir vori eftir þeim vorverkum sem hér tíðkast.

Eftir að hafa grennslast fyrir um af hverju þessi fjögur mál sem eru til afgreiðslu hjá menntamálaráðherra hafi ekki komið fram á málaskrá skilst mér að það sé vegna þess hve stuttan tíma ráðherrarnir höfðu til að kynna sér málin þegar ný ríkisstjórn tók við nýverið. Finnst mér engin ástæða til að rengja þær upplýsingar. En ég vil endilega hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að leggja eftirfarandi mál fram sem finna má á vefsíðu menntamálaráðuneytisins og voru sett inn á vef ráðuneytisins þann 9. september 2016. Vekja má athygli á því að vinnan í kringum þessi frumvörp hefur verið í gangi síðan 2010 og nú er komið 2017 og löngu tímabært, eins og fram kom í ræðu kollega míns, hv. þm. Smára McCarthys, að fara að fullgilda það sem þingið hefur nú þegar ákveðið að sé nauðsynlegt að gera.

Mig langar að benda mínum ágætu kollegum í þingsal og þeim sem hugsanlega munu kynna sér þessar umræður síðar, á þessi fjögur frumvörp sem liggja inni á vefnum hjá menntamálaráðuneytinu. Þau er að finna undir yfirskriftinni „Kynning á fjórum frumvörpum um tjáningar- og upplýsingafrelsi“. Fyrsta frumvarpið sem tilbúið er er um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, um afnám gagnageymdar. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál.

Annað frumvarp er um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, takmörkun á ábyrgð hýsingaraðila. Það er rosalega mikilvægt frumvarp þó svo að það hljómi dálítið nördalega. Ef við breytum þessu ekki má segja að fjöldamargir aðilar sem nú þegar hýsa gögn á Íslandi hafi ekki nægilega vernd. Þá er ég t.d. að tala um gögn sem hugsanlega hefur verið bjargað frá bandarískum yfirvöldum og hýsa vísindalegar staðreyndir um hlýnun jarðar. Það er nauðsynlegt að við förum að uppfæra löggjöfina til þess sem mjög margir halda að hún sé nú þegar.

Þriðja frumvarpið er til nýrra laga um ærumeiðingar. Ég mun aðeins fara yfir það frumvarp á eftir.

Fjórða frumvarpið er um breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 29/1940. Það varðar verndarandlag hatursáróðurs.

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þessi frumvörp enda finnst mér út frá þeirri orðræðu sem ég hef heyrt hér að þeir átti sig jafnvel ekki á því að nú þegar hefur verið samþykkt að fela ríkisstjórninni að semja þessi lög og hefur ríkisstjórnin þegar gert það.

Í frumvarpi til laga um ærumeiðingar sem leggja átti fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi, árið 2015–2016, eru lagðar til nokkrar mjög mikilvægar lagabreytingar. Þetta er heildræn löggjöf sem tekur á öllu því sem við eigum í vandræðum með þegar kemur að þeim mikilvæga hornsteini lýðræðis að hér ríki raunverulegt tjáningar- og skoðanafrelsi.

Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hver sem af ásetningi eða gáleysi meiðir æru annars manns með móðgun eða aðdróttun skal greiða bætur fyrir miska með hliðsjón af sök, eðli ummæla og aðstæðum að öðru leyti auk bóta fyrir fjárhagslegt tjón ef því er að skipta.

Ekki kemur þó til bótaábyrgðar ef tjáning telst lögmæt vegna þess að:

1. um er að ræða gildisdóm settan fram í góðri trú sem á stoð í fyrirliggjandi staðreyndum,“ eins og t.d. umræðan um Donald Trump,

„2. sýnt hefur verið fram á að ummæli séu sannleikanum samkvæm,

3. þótt ekki hafi verið færðar sönnur á ummæli, þá hafi viðkomandi verið í góðri trú, haft nægilega ríkar ástæður til að láta þau falla og auðsýnt tilhlýðilega aðgát eða

4. tilefni ærumeiðingar var ótihlýðilegt hátterni þess manns, sem telur sér misboðið, eða hann hefur goldið líku líkt.

Sá sem tekur þátt í útbreiðslu ærumeiðandi ummæla, sem stafa frá öðrum, sætir ábyrgð eftir sömu reglum og greinir í 1. mgr. og 1.–3. tölul. 2. mgr. nema annað leiði af lögum eða aðrar lögmætar ástæður mæli með því að undanþiggja hann ábyrgð.

2. gr. Heimilt er að kröfu þess, sem fyrir verður, að dæma ómerk ærumeiðandi ummæli, sem ekki hafa verið sönnuð, enda sé ekki um gildisdóm að ræða.

3. gr. Frestur til að höfða mál samkvæmt 1. og 2. gr. er sex mánuðir frá því ummæli féllu. Hafi ummæli verið birt endurtekið opinberlega byrjar sex mánaða frestur til málshöfðunar að líða þegar ummæli eru fyrst birt opinberlega.

4. gr. Beinist ærumeiðing að látnum manni er maka, sambúðarmaka, foreldrum, börnum, kjörbörnum, barnabörnum eða systkinum hins látna heimilt að krefjast ómerkingar með sömu skilmálum og fram koma í 2. gr.

5. gr. Ákvæði 95. gr.,“ sem við erum hér að fjalla um, „234.–241. gr. og b–c liðir 1. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga falla brott.“

6. gr. er hin hefðbundna: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég ætla að fara hérna yfir athugasemdir við lagafrumvarp þetta því að það er mjög gott.

„Inngangur. Stýrihópur mennta- og menningarmálaráðuneytisins á grundvelli þingsályktunar 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi sérstöðu varðandi lagalega vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis hefur um nokkurt skeið skoðað hvernig megi bæta lagalega umgjörð ærumeiðingarmála. Fengið var álit refsiréttarnefndar á því hvort rétt væri að afnema refsingar við ærumeiðingum. Þá hefur verið skoðuð réttarþróun í öðrum löndum. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði laga um ærumeiðingar verði færð úr almennum hegningarlögum í sérlög á einkaréttarsviðinu.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt og var grunnurinn að tilmælum til ráðuneytisins á sínum tíma.

„Jafnframt verði ákvæðin færð til nútímahorfs.“ Það er ekki síður mikilvægt.

„Réttarstaða hér á landi, alþjóðleg viðmið og þróun í öðrum ríkjum.

Hugtakið æra felur í sér tvenns konar þætti. Annars vegar er það hin huglæga æra eða sjálfsvirðing manns og hins vegar hin hlutlæga æra sem er virðing annarra. Almennt er talið að andlag ærumeiðingar sé hugmynd eða dómur um manngildi viðkomandi aðila.

Æra manna hefur notið verndar að lögum frá fornu fari. Leiða má æruvernd af 71. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og ýmsa dóma Hæstaréttar. Byggir það á þeim sjónarmiðum að mannorð er hluti af sjálfsmynd og persónuleika sem telst þáttur í einkalífi samkvæmt. ákvæðinu. Þá er minnst á æruna í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt henni er heimilt að takmarka tjáningarfrelsi til verndar æru manna.“

Í almennum hegningarlögum eru ákvæði um ærumeiðingar. Þau hafa ekki tekið neinum efnislegum breytingum frá því lögin voru sett árið 1940. Í 234. gr. er fjallað um móðganir. Með móðgunum er átt við niðrandi ummæli, sem falla ekki undir aðdróttanir og geta lækkað mann í áliti og sært sjálfsvirðingu hans. Móðgun beinist frekar að hinni huglægu æru en þeirri hlutlægu. Frá miðju ári 1995 þegar umfangsmiklar breytingar voru gerðar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar hafa fallið liðlega 30 dómar í Hæstarétti þar sem tekin hefur verið afstaða til þess hvort um móðganir er að ræða. Í helmingi málanna var krafist refsingar en aldrei fallist á þær.

Um aðdróttanir er fjallað í 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Aðdróttun eru ummæli sem eru til þess fallin að lækka þann, sem hún beinist að, í áliti annarra. Aðdróttanir eru almennt taldar alvarlegri en móðganir og undir þær falla meðal annars ásakanir um refsiverð afbrot. Í liðlega 40 málum frá 1995 hefur Hæstiréttur þurft að taka afstöðu til þess hvort um aðdróttun væri að ræða. Einungis einu sinni hefur Hæstiréttur dæmt refsingu. Það var 11. febrúar 2010 þar sem dæmd var 100.000 kr. sekt.

Í 241. gr. almennra hegningarlaga segir að dæma megi óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess, sem misgert var við. Ómerking ummæla hefur verið álitin vægust þeirra úrræða sem standa til boða þegar ummæli hafa verið talin ærumeiðandi. Þannig hafa þau ekki verið talin til refsingar þótt úrræðið sé að finna í almennum hegningarlögum. Úrræðið þekktist lengi vel einungis í Danmörku og Noregi utan Íslands. Nú hefur það verið fellt úr norskum lögum, samanber síðar. Skyld úrræði eru þó til víðar, þess eðlis til dæmis að rétturinn lýsi því yfir að ummæli séu ósönnuð. Ómerking ummæla hefur verið skilgreind sem uppreisn fyrir hinn meiðyrta mann og staðfesting á að ummæli skuli teljast marklaus.

Almenna reglan er sú að ekki verður refsað fyrir sönn ummæli.

Tvenns konar frávik eru frá því í almennum hegningarlögum. Þessum ákvæðum er afar sjaldan beitt.

Í stuttu máli má endursegja þau viðmið sem mótast hafa hjá Mannréttindadómstól Evrópu í tjáningarfrelsis- og meiðyrðamálum svo:

Rík vernd tjáningarfrelsis, frelsis fjölmiðla og upplýsingaréttar almennings, er hornsteinn í lýðræðissamfélagi. Því verður að gera strangar kröfur til allra takmarkana á slíku frelsi. Sérstaklega á það við þegar fjölmiðlar gegna því hlutverki að fjalla með gagnrýnum hætti um stjórnmál, starfsemi stjórnvalda og annarra áhrifamikilla aðila eða önnur málefni sem varða almenning.

Íhlutun í tjáningarfrelsi þarf samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að uppfylla þrjú meginskilyrði, þ.e. að hún byggist á lögum, þjóni lögmætum markmiðum og geti talist nauðsynleg í lýðræðisríki. Lögin sem um ræðir þurfa að vera nægilega skýr til þess að borgararnir geti áttað sig á því hverjar skyldur þeirra séu. Æruvernd er eitt af hinum lögmætu markmiðum, þannig að það er í sjálfu sér heimilt að viðhalda lögbundnum úrræðum til að bregðast við meiðyrðum og getur jafnvel talist skylt enda fellur æruverndin undir friðhelgi einkalífs. Þá felur krafan um nauðsyn í sér að gæta verði meðalhófs. Þungar refsingar við meiðyrðum gætu til dæmis falið í sér brot á 10. gr.

Gera verður greinarmun á gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir. Ekki fær staðist samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að gera þær kröfur að færðar séu sönnur á meiðandi gildisdóma. Hins vegar má gera þá kröfu samkvæmt lögum að gildisdómar séu settir fram í góðri trú og að þeir eigi einhverja stoð í fyrirliggjandi staðreyndum. Þessi sérstaka vernd fyrir gildisdóma byggist bæði á eðli þeirra og því að þeir falla undir skoðanafrelsi samkvæmt 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Þegar tjáning er hluti af opinberri umræðu um málefni sem varðar almenning stenst það ekki gagnvart 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að gera skýlausa kröfu um sönnun ummæla, jafnvel þótt um staðhæfingar um staðreyndir sé að ræða. Hins vegar ber í slíkum tilvikum að gera kröfu um að ummæli séu sett fram í góðri trú, og að eðlileg varkárni hafi verið auðsýnd. Í tilviki fjölmiðla þarf samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu sérstakar forsendur til að leysa þá undan venjulegri skyldu sinni til að sannreyna fullyrðingar um staðreyndir sem eru ærumeiðandi fyrir einstaklinga. Hvort slíkar forsendur séu fyrir hendi veltur einkum á því hvers eðlis og hversu alvarleg ærumeiðingin er og að hvaða marki sé eðlilegt að ætlast til að fjölmiðlar geti reitt sig á heimildir sínar. Þeim mun alvarlegri sem staðhæfing er, þeim mun traustari þarf staðreyndargrunnurinn að vera.

Við mat á lögmæti ummæla ber ekki að skoða þau einangrað heldur í samhengi við þá umræðu sem þau eru hluti af, tilgang og stöðu þeirra sem í hlut eiga.

Nú er ég búin með tímann minn, því miður. Ég á eftir að fara mun ítarlegar yfir þetta frumvarp því að mér finnst það mjög mikilvægt og ég á enn eftir að fara yfir það með ykkur af hverju þetta frumvarp og þeir sem sömdu það lögðu til að 95. gr. yrði felld brott. En ef þetta frumvarp fer ekki að koma hér inn skulum við bara drífa okkur í að klára það. Ég vil þakka hv. þingmanni, sem er frummælandi málsins, (Forseti hringir.) fyrir að leggja það á borð fyrir okkur hér á þingi.