146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:36]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að leggja þetta mál fram og hv. þingmönnum Vinstri grænna almennt fyrir að eiga frumkvæði að þessu mikilvæga máli sem mér er umhugað um. Okkur Pírötum er almennt mjög umhugað um tjáningarfrelsi og það að afnema úrelt lög sem hefta það um of. Eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kom vel inn á eru mál enn þá á borði ráðuneyta sem leiða af einmitt frumvarpinu sem er mjög mikilvægt að nái fram að ganga. Gera þarf alls konar umbætur á t.d. meiðyrðalöggjöfinni, eins og hv. þingmaður fór yfir. Ég vil persónulega að hún verði milduð, að meiðyrðadómar taki betur mið af aðstæðum og formi tjáningar sem ummæli eru sett fram á, tillit verði tekið til þess hvort ummæli hafi verið dregin til baka, hversu mikill vafi leiki á um sannleiksgildi þeirra o.s.frv. En gott og vel. Eitt í einu.

Þessi tilteknu lög, þ.e. þessi tiltekna grein hegningarlaga, 95. gr., er svo sannarlega úrelt og allt tilefni til að afnema hana með öllu hið fyrsta. Jafnvel þótt henni hafi ekki mikið verið beitt undanfarin misseri er alltaf hætta á því, kannski sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við á heimsvísu í dag þar sem sérstakt tilefni er til þess að smána erlenda þjóðhöfðingja og æðstu ráðamenn. Það hefur náttúrlega alltaf verið, eins og hv. þm. Smári McCarthy kom inn á áðan, en ég held að mikilvægt sé almennt að þessi grein verði afnumin og fagna því að við notum núverandi aðstæður til þess að koma því í verk. Það er mikilvægt að við hér í ræðustól og almenningur fái fullt frelsi til þess að smána hvern sem okkur sýnist í raun og veru, og þá sérstaklega erlenda þjóðhöfðingja.

Mig langar til að vekja athygli á því, þar sem lagt er til að öll greinin falli brott, ef ég skil þetta rétt, að í þeirri grein er ekki aðeins talað um að smána erlenda þjóðhöfðingja. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Ef ég eða einhver móðgar erlenda þjóð, erlend ríki, ef ég segi að Bandaríkin standi sig ekki alveg nógu vel þessa dagana, getur það varðað við þessi lög einnig. Og ekki bara það. Ef mér finnst fáni Sameinuðu þjóðanna ekki vera fallegur eða vel hannaður og ég lýsi þeirri skoðun minni opinberlega, þá varðar það við almenn hegningarlög að smána þennan fána, „pun intended“, með leyfi forseta.

Við erum sem sagt komin í íslenska uppsetningu Alþingis á „Fun With Flags“ með Sheldon Cooper eða „Fjör með fánum“ með Viktori Orra Valgarðssyni eins og ég kýs að kalla það. Hér er fáni Evrópu sem Evrópuráðið tók upp árið 1955 og Evrópusambandið tók síðan upp, eða Evrópubandalagið eins og það hét þá árið 1985. Mér finnst þessi fáni reyndar frekar smart. Ég verð að viðurkenna það. Hann er frekar settlegur og einfaldur. Það er gaman að segja frá því að 12 stjörnur eru í fánanum sem var tekinn upp 1955. Margir halda, vegna þess að aðildarríki ESB voru 12 á nokkurra áratuga bili, að þetta hafi táknað aðildarríkin. En svo er ekki. Upphaflega var lagt til að stjörnurnar yrðu 15 sem var þá fjöldi aðildarríkja Evrópuráðsins sem tók þennan fána fyrst upp. En Vestur-Þýskaland mótmælti því vegna þess að eitt af aðildarríkjum Evrópuráðsins var Saarland hvers fullveldi og sjálfstæði var deilt um á alþjóðavettvangi. Þau töldu að það að láta stjörnur tákna Saarland myndi það viðurkenna fullveldi þeirra sem um var deilt. Ég gæti viljað mótmæla því að þessi ágæti fáni sé táknmynd kúgunar, jafnvel á sjálfstæðisbaráttu Saarlands af hálfu Vestur-Þýskalands á sínum tíma. En ég má það aðeins úr þessum ræðustól því að það er bannað að smána fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs.

Fyrst ég er byrjaður þá táknar blár og hvítur liti Sameinuðu þjóðanna. Þetta táknar náttúrlega frið, þessi lárviðarlauf, heitir það það ekki á íslensku? (Gripið fram í: Jú.) Og hér er heimskort frá sjónarhóli norðurpólsins, sem er mjög sniðugt því að mörg heimskort eru mjög vestrænt eða norrænt þenkjandi. Þetta er vissulega svolítið norrænt. En vinur minn, Atli Jasonarson, hefur gert sér það að leik undanfarin ár að taka við beiðnum á Facebook um að hanna ímyndaða nýja fána, þjóðfána, eða einhvers konar fána. Hugmyndirnar hafa verið alls konar og afurðirnar að mínu mati til algerrar fyrirmyndar. Ég bað hann á sínum tíma, fyrir einhverjum árum, um að hanna fána alheimsríkisstjórnarinnar, ef af yrði, þ.e. sameiginlegrar ríkisstjórnar allra ríkja heims. Eins og sjá má er sá fáni nokkuð keimlíkur fána Sameinuðu þjóðanna og tekur hann sér til fyrirmyndar. Þetta er heimskort, að vísu svolítið vestrænt. Hér er friðardúfa og hvíti liturinn táknar friðarljóma eins og lárviðarlaufið gerir. En ég má smána þennan fána en ekki hinn. Sem er augljóslega mjög málefnaleg og mikilvæg löggjöf í almennum hegningarlögum Íslendinga.

Hann bjó einnig til fána endurstofnaðs Kalmarssambands sem mér finnst einnig vera mjög sniðugur. Hann blandar eins og sést hér saman fánum nokkurra Norðurlanda. Kannski fullmikið af litum. En ég má sem sagt segja það en ekki að hinir fánarnir séu ljótir.

Þetta er kannski hugsanlega að hluta til til gamans gert en einnig til að vekja athygli á fáránleika þessarar löggjafar sem segir að það varði, með leyfi forseta, „sektum eða fangelsi allt að 2 árum“ að smána fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs.

Eins og komið hefur fram styð ég þetta mál heils hugar og þakka fyrir frumkvæðið að því að leggja það fram.