146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[14:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart að ég styð það frumvarp sem hér er lagt fram, verandi einn af flutningsmönnunum. Það væru kannski meiri tíðindi ef ég stæði hér og drægi stuðning minn til baka. Svo er ekki.

Í sjálfu sér ætti ekki að þurfa að lengja þessa umræðu mikið, en samt ætla ég að leyfa mér að gera það. Sumir í samfélaginu hafa kallað þetta eitthvert smámál, látið eins og þetta skipti ekki máli. Við heyrðum hv. þm. Birgi Ármannsson tala um að þetta væri kannski ekki forgangsmál, jafnvel að það kæmi ekki til þess í því nútímaástandi sem við búum við að þessu ákvæði yrði nokkru sinni beitt. En fyrir mér er þetta angi af stærra máli og kannski birtingarmynd ákveðins ástands sem ég hef talið að væri okkur til hnjóðs. Hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson fór hér yfir greinina sem lagt er til að felld verði úr hegningarlögum. Í raun þarf ekkert meiri rökstuðning með þessu máli en að lesa þá grein. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.“

Það er sem sagt hægt að vera dæmdur í fangelsi í allt að sex ár fyrir að smána erlenda þjóð eða ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja, fána eða annað viðurkennt þjóðarmerki. Það er náttúrlega svo galið að eiginlega þarf ekkert að ræða það. Stuttu á eftir þessari grein í almennum hegningarlögum er grein sem fjallar um njósnir. Þar er refsiramminn fangelsi allt að fimm árum ef hjálpað er til við njósnir eða njósnir stundaðar fyrir erlent ríki. Nú ætla ég ekki að ýta undir að við förum að beina kröftum okkar að því að sporna gegn njósnum, ég held að við höfum oft á tíðum verið kannski svolítið „paranojuð“ í þeim efnum, ef ég leyfi mér að sletta, með leyfi forseta. En það er samt náttúrlega galið að fyrir njósnir fyrir erlent ríki sé refsiramminn fimm ár en fyrir að smána þjóðhöfðingja ríkisins sé refsiramminn allt að sex ár ef um alvarlega móðgun eða smánun sé að ræða.

Hver á að meta þetta? Það eru væntanlega dómstólar. Í lögum er allt sem komið er undir smekk fólks eða málsniði þess sem um það fjallar, slæmt. Síðar segir í þessari grein, með leyfi forseta:

„Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum, eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi.“

Og svo að lokum:

„Sömu refsingu skal hver sá sæta sem ógnar eða beitir valdi gagnvart sendierindreka erlends ríkis hér á landi eða ræðst inn á eða veldur skemmdum á sendiráðssvæði eða hótar slíku.“

Ef ég ræðst t.d. inn á sendiráðssvæði og veld skemmdum er ég að brjóta sömu grein og með sama refsiramma og ef ég stend hér úti á torgi eða fer í blaðaviðtal og móðga erlendan þjóðhöfðingja. Þetta er náttúrlega galið, svo ég leyfi mér að segja það.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, fór vel yfir það sem að baki frumvarpinu býr. Mig langar að tala aðeins um þetta á hugmyndafræðilegri nótum. Þó að þetta ákvæði hafi verið í hegningarlögum um hríð, og ég verð að játa að ég er ekki með það nákvæmlega á hreinu hvenær það kemur þangað inn en það er búið að vera þar lengi, þá finnst mér mjög við hæfi að við fjöllum sérstaklega um það. Hér hafa hv. þingmenn talað um nauðsyn á allsherjarendurskoðun á almennum hegningarlögum. Það er vel. Við eigum að endurskoða reglulega í grunninn stóra lagabálka sem fjalla um ákveðin mál eins og hegningarlög gera. Það eigum við að gera sem þingmenn nokkuð reglulega. En mér finnst þessi leið, að fjalla sérstaklega um þetta mál hér, af hinu góða því það gefur okkur færi á að ræða aðeins hvað að baki þessu býr og tengja þetta úrelta ákvæði inn í samtímann og þá umræðu sem við búum við í dag.

Við höfum orðið vitni að því á undanförnum dögum og vikum að einhverjir hafa orðið hneykslaðir á því hvað orð hafa verið viðhöfð í þessum ræðustól í garð erlends þjóðhöfðingja. Það er bara eins og það er. Það er ekkert hægt að skammast yfir því að einhver hneykslist á orðanotkun annarra. Það er fátt sem er bundnara við eigin persónu og smekk, uppeldi, málsnið, viðhorf, en einmitt hneykslun. Þeir sem hneykslast á ákveðinni orðanotkun í garð Trumps Bandaríkjaforseta er kannski fólk sem ekki hefur átt því að venjast að talað sé þannig um forseta Bandaríkjanna hingað til. Mér er það hins vegar ekki til efs að héðan úr þessum ræðustól hafi margoft verið talað á svipuðum ef ekki verri nótum um forseta ýmissa ríkja í gegnum árin og áratugina, ef ekki aldirnar. Er þetta ekki orðin rúm öld, ein og hálf öld? Eitthvað svoleiðis. Í sumum tilvikum hefur það ekki þótt neitt tiltökumál því að það hefur verið nokkuð almenn samstaða um að viðkomandi þjóðhöfðingjar hafi nú verið hálfgerðir drullusokkar, með leyfi forseta, og hafi átt þetta orðalag skilið. Í öðrum tilvikum hefur það kannski verið þannig að þeir hafa verið úr þeirri hliðinni í stjórnmálum að það hafi ekki vakið neina sérstaka athygli að leiðtogar kommúnistaríkja eða einfaldlega ríkja sem kenndu sig við fasisma hafi verið kallaðir ákveðnum nöfnum úr þessum ræðustól.

Það sem ég held að hafi vakið þessa umræðu í samfélaginu núna var að í þessu tilviki féllu orðin um þjóðhöfðingja Bandaríkjanna sem hingað til hafa verið í hugum sumra einhvers konar merkisberi frelsis og lýðræðis þótt ekki deili allir þeirri skoðun. Þetta hefur í það minnsta gefið mér tilefni til að velta því fyrir mér hvernig almennt háttar um stjórnmálaumræðu, og almenna þjóðfélagsumræðu. Ég hef talið að það sé ákveðið vandamál í almennri umræðu hvað við erum gjörn á að tala ekki skýrt. Það virðist vera orðin lenska að nota frekar orðaleppa en að segja það sem við meinum. Hugtök hafa verið á reiki í almennum stjórnmálum. Hver veit hvað vinstri/hægri þýðir í dag? Við tölum ekkert hreint út um það. Ég vona að þið hafið þolinmæði með mér þótt einhverjum kunni að finnast ég kominn út fyrir akkúrat efni þessa frumvarps en þetta eru þær hugleiðingar sem hafa kviknað með mér um þetta. Ég held að því skýrar sem við ræðum um hlutina, því betur séum við í stakk búinn til að komast að niðurstöðu. Því skýrar sem við ræðum um hvað okkur finnst um mál og manneskjur, því skýrar sem við segjum okkar skoðun, okkar tillögur og stefnu, því meiri líkur eru á að hægt sé að ræða á hugmyndafræðilegum grunni um mismunandi áherslur í þeim efnum. Því meira sem við notum orðaleppa sem enginn veit hvað þýðir — kerfisbreytingar eða eitthvað í þá veru, hvað þýðir það, frjálslyndir, frjálslynd miðjustefna eða hvað það er, dæmin eru örugglega töluvert mörg — þeim mun erfiðara verður að ræða um hlutina á hugmyndafræðilegum grunni og komast að niðurstöðu sem byggir á vitrænni umræðu. Ef hægt er að skýla sér á bak við orðaleppa er erfiðara að komast að niðurstöðu.

Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er í raun og veru andstæða þess sem ég er að segja. Hér er verið að segja að við þurfum ekki lengur að fara eins og köttur í kringum heitan graut þegar við segjum hvað okkur finnst um erlenda þjóðhöfðingja. Ef okkur finnst eitthvað um þá lýsum við því bara, þurfum ekki að fegra það og færa í búning sem hentar ramma laganna þannig að þeir sem hafa skrauthvörf best á sínu valdi standi best að vígi því að þeir geta sagt allt undir rós sem aðrir þurfa að nota bein orð til að segja.

Einföldum regluverkið, lögin í kringum þetta. Leyfum fólki að segja það sem það meinar. Hv. þm. Pawel Bartoszek sagði hér góða dæmisögu sem hreyfði við mér og mörgum hér inni að ég hygg, varðandi það að pólskur maður var kærður fyrir að móðga þjóðhöfðingjann og hann hefði verið að lýsa skoðun sinni á embættisverkum með þeim orðum sem honum voru töm. Það er kannski á endanum það sem þetta snýst um, að bera virðingu fyrir málsniði annarra, því hvernig fólki er tamt að orða hugsanir sínar.

Nú er ég búinn að reyna að koma hugsunum mínum hér í orð á þeim tíma sem mér er úthlutaður og vona að það sé einhver þráður í þessu. Við í salnum höfum öll meira eða minna tekið til máls um þetta frumvarp. Mér skilst að stór meiri hluti þingmanna sé á viðskiptaþingi og þar er örugglega verið að ræða einhver góð mál, en þetta mál á væntanlega eftir að koma aftur til umræðu eftir að því verður vísað til nefndar. Ég fagna þeim stuðningi sem hv. þingmenn sem á undan mér hafa lýst við frumvarpið. Aftur segi ég að ef við þurfum að fara í annars konar og enn frekari endurskoðun á almennum hegningarlögum þá gerum við það bara. En styðjum þetta mál áfram. Þessi einstaka grein á meira erindi við okkur í samtímanum en oft áður. Við horfum fram á að æ oftar verði tilefni til þess á næstu árum að beita þessari grein, ef hún verður í lögum, ef vilji er fyrir hendi. Það á ekki að vera eins og einhver svipa yfir fólki og hafa áhrif á umræðu að mögulega geti einhver tekið sig til og beitt þessari löngu úreltu grein.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli franska dagblaðsins Le Monde um að sérstök vernd þjóðhöfðingja sé ónauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Það ætti eiginlega að vera hverjum manni ljóst sem skoðar það mál að ekki þarf að vernda þá neitt sérstaklega. Og eins og rakið er í greinargerðinni hafa íslenskir lögspekingar lýst efasemdum um að unnt sé að dæma eftir 95. gr. í ljósi 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég vil að lokum lýsa sérstakri ánægju með orð hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um að því yrði á einhvern hátt komið í lög að þeir dómar sem falla hjá Mannréttindadómstóli Evrópu hafi áhrif inn í íslenska löggjöf þannig að ekki þurfi aftur og aftur að sækja íslenska ríkið til saka fyrir þeim dómstóli. Ég lýsi yfir stuðningi minni við þá hugsun og að mál af því tagi komi fram.