146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir þetta. Þetta var góð yfirferð á þessum vangaveltum. Að sjálfsögðu tek ég tillit til allra þeirra viðmiða sem hv. þingmaður nefndi. Markmiðið er alltaf að reyna að vera eins nákvæmur og maður getur og koma meiningu sinni á framfæri á eins skýran og skilmerkilegan hátt og hægt er. Að sjálfsögðu reynir maður að forðast orð sem vekja upp tilfinningar hjá viðmælanda sínum sem leiða til þess að viðkomandi misskilur það sem maður var að reyna að koma á framfæri. Þrátt fyrir allt það getur það verið eins og í dæminu sem hv. þm. Pawel Bartoszek nefndi um Pólverjann sem notaði þau orð sem honum voru töm, það var nákvæmasta framsetning hans á skoðun sinni. Í því tilviki móðgaðist viðmælandi hans eða skotmark hans, en öll önnur orð hefðu væntanlega verið verri í því skyni að koma merkingunni á framfæri. Maðurinn gat ekki valið önnur orð en þau sem hann valdi. Hann reyndi að vera eins hreinskilinn og hann gat og á sama tíma að vera eins kurteis og hann gat. Stundum fer það bara ekki alveg saman.