146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur. Það má heldur ekki gleyma því að það eru önnur ákvæði almennra hegningarlaga sem koma inn á meiðyrði, hatursáróður. Er það komið inn í hegningarlög eða …? Það er ekki alveg svart eða hvítt þótt heimspekin vilji stundum láta það hljóma þannig, sérstaklega ekki í tveggja mínútna andsvörum. En almennt er það þannig að því skýrari og hreinskilnari sem við erum þegar við segjum skoðanir okkar á hlutum þeim mun betur held ég að okkur farnist.

Við getum tekið lítið dæmi úr umhverfi okkar. Í morgun vorum við með spurningar í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, eins og oft áður í störfum okkar, án þess að ætla að móðga neinn ráðherra, enda eru þeir væntanlega ekki bundnir — það fellur alla vega ekki undir 95. gr. í það minnsta, sem við leggjum hér til að verði felld niður. Það væri auðvelt að færa rök fyrir því að sum svör ráðherra sem við hlýddum á í morgun hafi ekki verið lögð fram undir þeim formerkjum þess að góð samtöl fari helst þannig fram að skoðanir manna séu sagðar umbúðalaust, á hreinskilinn og sem einfaldastan hátt. Það er því hægt að beita ýmsum brögðum varðandi það hvernig menn ræða hlutina sín á milli og hversu mikið fólk er tilbúið til að upplýsa um skoðanir sínar eða hversu lunkið það er að flækja raunverulega merkingu í innihaldslausum orðum.