146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

almenn hegningarlög.

101. mál
[15:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gott að stíga í pontu að loknum jafn heimspekilegum umræðum og voru hér á undan og kannski ekki furða því að málið sem undir er er nokkuð stórt. Við erum að tala um ákveðinn grundvöll samskipta, í þessu tilviki á milli einstaklinga hér á landi og erlendra þjóðhöfðingja, en um það snýst tjáningarfrelsið öðru fremur. Það er kannski á köflum hjákátlegt hjá fyrir okkur sem hér stöndum að tala um úreltan lagabókstaf þegar kemur að samskiptum við fólk sem gegnir ákveðnum virðingarstöðum. Hér klæðum við okkur alltaf í ákveðinn hegðunarbúning þegar við stígum í pontu. Í þessum sal erum við samstarfsfélagarnir hæst- eða háttvirtir og tölum ekki alveg eins og fólk talar flest og klæðum okkur ekki endilega eins og við mundum gera dagsdaglega, en það er hluti af því starfsumhverfi sem við höfum skapað okkur hér í þessum sal en ekki lög sem sett eru utan frá til að ráða því hvort við megum móðga erlenda þjóðarleiðtoga sem eru nú oft móðgunargjarnari en fólk er flest.

Hér hefur verið talað um að það sé mikið af dauðum ákvæðum í lagasafninu. Þótt þau séu dauð megum við ekki treysta því að þau lifni ekki við, eins og hv. þm. Pawel Bartoszek nefndi og hefur nefnt oft áður, hann nefndi það gjarnan í störfum stjórnlagaráðs, þá eigum við þegar við erum að semja reglur fyrir samfélagið að horfa aðeins fram í tímann og ímynda okkur hvað verulega illa innrættur leiðtogi myndi gera með verkfærin sem við erum að smíða. Þannig er það með 95. gr., henni hefur verið beitt og það er hægt að beita henni. Meðan svo er þá er hún ekki dauð, hún liggur í dvala, en það er hægt að beita henni.

Við eigum ákvæði í almennum hegningarlögum sem eru almenn. Þessi 95. gr. er ekki almenn heldur sérstaklega sértæk. Hún nær til erlendra þjóðarríkja og æðstu ráðamanna og þjóðhöfðingja. Við erum að tala um um 500 einstaklinga í heiminum sem gætu mögulega fallið undir þetta á hverjum tíma. Almenn hegningarlög eiga að vera almenn eftir því sem hægt er. Ef við þurfum sértæk lög þurfum við að rökstyðja það sérstaklega. Rökin fyrir því að halda þessu í lagasafninu sé ég ekki.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fór ágætlega yfir þá heildarendurskoðun sem æskileg væri í þessum málum. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni að það væri óskastaða að við gætum tekið tjáningarfrelsið dálítið föstum tökum og fært í myndarlegan lagabúning. Eins mætti fara að endurskoða hegningarlögin rækilega frekar en að laga einn og einn ágalla, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði, en á meðan við erum ekki í heildarendurskoðun þá þigg ég það að við losum okkur við annmarkana.

Mig langar að nefna tvær sem við höfum losnað við á nýliðnum árum. Sú fyrri eru lög um brottfall laga sem heimiluðu læknisaðgerðir á fólki til að koma í veg fyrir að það auki kyn sitt, svokallaðar afkynjanir. Þessi lög voru sett sem hluti af mannbótastefnu árið 1938 og snerust umfram allt um að fremja þvingaðar ófrjósemisaðgerðir eða fóstureyðingar á fólki sem stóð höllum fæti í samfélaginu, aðallega fötluðum, hér á landi. Ég er ekki með tölurnar á hreinu, en við erum að tala um stóra hópa. Þessi lög voru skorin nokkuð niður 1975 þegar þvinguðu fóstureyðingarnar voru teknar út, en eftir stóð lagabókstafur sem vissulega hafði ekki verið beitt árum saman sem heimilaði stjórnvöldum það inngrip í líf fólks að fjarlægja kynkirtla úr þeim þannig að það gætu ekki aukið kyn sitt. Þó að því hafi ekki verið beitt í 30, 40 ár var full ástæða til að nema það úr gildi. Í því skyni lagði Álfheiður Ingadóttur, þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, fram frumvarp sem þingheimur var fljótur að samþykkja.

Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur nú bent á að það eimi enn eftir af þeirri stemningu í lagasafninu þegar kemur að lögræðislögum í lögum um fóstureyðingar þar sem lögráða aðili ólögráða manneskju getur þvingað viðkomandi í fóstureyðingu. Við sjáum að dauði lagabókstafurinn lifir stundum ótrúlega góðu lífi þó að hann liggi í dvala.

Svo langar mig að nefna annan agnúa sem sniðinn var af á 144. löggjafarþingi. Ég fékk að vera með á málinu og greiddi auðvitað atkvæði með því. Það gerðu allir þingmenn utan einn. Þar er ég að tala um litla breytingu á almennum hegningarlögum þar sem þáverandi 125. gr. laganna féll brott. Það var guðlastsákvæðið, annað lítið ákvæði sem snertir tjáningarfrelsi sem vissulega hafði ekki verið beitt árum saman, en því hafði þó einhvern tímann verið beitt í óljósum og jafnvel vafasömum tilgangi. Það var ekki svo erfitt að ímynda sér illviljuð stjórnvöld sem myndu misnota þann lagabókstaf, eins og hv. þm. Pawel Bartoszek nefndi, af því að það hafði gerst varðandi þessi lög. Af hverju skyldi það ekki gerast aftur?

Þetta frumvarp Helga Hrafns Gunnarssonar, þáverandi þingmanns Pírata og annarra sem þingflokk Pírata skipuðu, var þjóðþrifamál. Ég sat í þessum sal þegar það var tekið til lokaafgreiðslu. Það var ekki mikill ágreiningur um það. Ég vona að það sama muni eiga við um það mál sem við fjöllum um núna af því að þetta sértæk lög til að vernda einn ákveðinn hóp sem þarfnast ekki sérstakrar verndar af því að við eigum lagabókstaf sem nær yfir meiðyrði, sem er auðveldara að skilgreina en móðgun eða smánun, eða hvað það er sem hinn erlendi móðgunargjarni þjóðhöfðingi gæti tínt til. Ég hlakka til að sjá þetta mál halda áfram hér innan þings og vonandi verður það samþykkt að lokum.

Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að hafa haft frumkvæði að þessu máli og koma með það, og allur þingflokkur Vinstri grænna, inn á þing. Ég er reyndar ekki á málinu af því að á þeim tíma var varamaður minn á þingi, en ég hefði svo sannarlega verið einn af flutningsmönnum málsins ef þess hefði verið kostur, því að þetta er skýrt mál, réttlætismál og gott mál.