146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá. Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi:

„Engin gjaldtaka skal þó vera fyrir rafræna uppflettingu í skránni og skulu allar upplýsingar birtast í rafrænni uppflettingu.“

Þetta er mjög lítil en mjög mikilvæg breyting. Sambærilegt frumvarp var lagt fram á 145. þingi, en fékk þá ekki brautargengi. Með frumvarpi þessu er lagt til að upplýsingar fyrirtækjaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning. Lagt er til að ekki skuli tekið gjald fyrir rafræna uppflettingu í fyrirtækjaskrá og að sömu upplýsingar skuli vera aðgengilegar þar og ef greitt er fyrir eintak af gögnunum úr skránni. Til dæmis er nú aðeins hægt að fá upplýsingar um stjórn og ársreikninga félaga með því að greiða fyrir þær. Telja verður að þær séu því ekki aðgengilegar almenningi. Þetta er mikilvægasta skrefið í því að gera eignarhald fyrirtækja gagnsætt.

Fjölmiðlamenn hafa t.d. kvartað undan því að geta ekki sinnt upplýsingahlutverki sínu bara af því það kostaði aðeins of mikið að fá upplýsingar úr fyrirtækjaskrá, bara af því að gögnin fyrir eina frétt kostuðu 50.000 kr. — þá birtist fréttin ekki, hún varð aldrei til og almenningur varð fátækari fyrir vikið.

Án aðgengis að gögnunum verða allar aðrar breytingar í átt að gagnsæi gagnslausar. Það þarf að gera ýmislegt fleira. Það þarf að tryggja að ekki sé hægt að hafa skuggaeignarhald, að einungis skráðir eigendur eða prókúruhafar, sem bera lagalega ábyrgð og eiga í fyrirtæki, séu þeir sem eru skráðir; að ekki sé lagaleg leið til að eiga án þess að tilkynna.

Í tillögu fyrrverandi hv. þm. Péturs Blöndals, um gagnsætt eignarhald, kemur fram að gagnkvæmt eignarhald, raðeignarhald og óljós dulin eign var ein af ástæðunum fyrir því að efnahagur fyrirtækja bólgnaði út, þau gátu nýtt sér glufur í kerfinu til þess að fela hversu mikils virði þau voru í raun og veru. Þessi breyting er lítil en hún er gríðarlega mikilvægt fyrsta skref í áttina að ábyrgri þátttöku fyrirtækja og félaga í opna og gagnsærra samfélagi.

Ég get tekið dæmi. Við getum flett frítt upp í símaskrá, en við getum ekki flett frítt fyrir sambærileg gögn í fyrirtækjaskrá. Samt varða upplýsingarnar í fyrirtækjaskrá almannahag en gera það ekkert sérstaklega í símaskrá. Þetta eru upplýsingar sem eru varðar peningavegg. Peningaveggur er reistur fyrir framan gögnin og það kemur í veg fyrir gagnsæið sem uppflettingin á annars að tryggja. Þetta er falskt gagnsæi sem við búum þarna til.

Upplýsingar sem eru girtar með vegg og hliði sem kostar að fara í gegnum eru nefnilega ekki aðgengilegar almenningi. Á þeim einföldu nótum og frekar augljósu, að því er ég tel, legg ég til að þetta frumvarp verði sent áfram til nefndar og 2. umr.