146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[15:42]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt og gott frumvarp sem hér er lagt fram. Ég segi það sem meðflutningsmaður á því að mér hafa fundist fá mál, sem komið hafa fram á þessu þingi, jafn mikilvæg.

Það er afskaplega erfitt að gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að hafa fullan og óheftan aðgang að gögnum úr fyrirtækjaskrá. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hér áðan símaskrána. Mér finnst það gott dæmi vegna þess að maður hugsar svo sjaldan um það hversu miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að símaskráin sé opinber og aðgengileg. Hvernig væri það ef það kostaði þó ekki væri nema 10 kr. að fletta upp einu númeri í símaskránni, ef maður þyrfti að skrá sig inn á vef og borga þennan tíkall? Öll fyrirhöfnin yrði til þess að það flæði sem nú er til hætti að vera til, þ.e. þegar fólk getur ekki lengur kannað hlutina með einföldum hætti.

Fyrirtækjaskrá er mjög lík símaskrá að þessu leyti en hagsmunirnir eru kannski ívið stærri. Til dæmis hefði verið töluvert erfiðara fyrir okkur sem unnum að rannsóknum á Panamaskjölunum á sínum tíma ef ekki hefði verið aðgangur að fyrirtækjaskrám í ýmsum löndum, hvers íbúar komu fyrir í skjölunum, t.d. í Bretlandi. Og reyndar, af því að Panamaskjölin vísa náttúrlega í Panama, var fyrirtækjaskrá Panama, og ég segi var, að hálfu leyti opin, þ.e. hún var opin að því leyti að hægt var að fletta upp einstökum fyrirtækjum en ekki var hægt að leita í henni almennt eftir t.d. stjórnendum og öðru þess háttar.

Hún var í raun opnuð af Dan O'Huiginn sem náðu í hverja einustu síðu og bjó til forrit sem las úr henni inn í gagnagrunn sem svo var hægt að leita í. Þetta gerði það að verkum að rannsóknarblaðamenn náðu að afhjúpa verulegar eignir sem Leylu og Arzu Aliyeva áttu víða um heim, dætur forseta Aserbaídsjans. Sömuleiðis náði Friedrich Lindenberg að opna fyrirtækjaskrá Máritíus nú nýlega og með því sýndi hann fram á alveg gríðarlega mikið krosseignarhald á fyrirtækjum, m.a. hjá þjóðhöfðingjum víða, og einkum þá í tengslum við rosalega verðmæt námuréttindi bæði í Máritíus og víðar á svæðinu. Þetta gerði hann að vísu einkum með því að panta skjöl í gegnum tölvupóst, með því að biðja um fyrirtækjaskrár í tölvupósti í hollum yfir lengri tíma. En í báðum þessum tilvikum kostaði þetta þó ekkert, en þarna var aðgengi hamlað með tæknilegum hindrunum.

Til að taka dæmi um stöðu þar sem kostnaðurinn er raunverulegu þá væri það PACER-gagnagrunnurinn sem var notaður í Bandaríkjunum og er. Það er gagnagrunnur þar sem hver einasta síða af lögskýringargögnum og gögnum sem tengjast dómsmálum, sem eru höfð á alríkisstiginu í Bandaríkjunum, koma fyrir; það kostaði tvö til fimm sent bandaríkjadollars á hverja blaðsíðu að sækja gögn úr þeim gagnagrunni. Í raun eru blaðsíður algjörlega merkingarlausar gagnvart tölvum. Tölvur hafa engar skoðanir á þeim og kostnaðurinn af því að geyma gögn í gagnagrunni er svo til enginn. Engu að síður kostaði það þessi örfáu sent. Það var Aaron Schwartz, sem hafði auðgast svolítið á því að selja veffyrirtæki, sem ákvað að nota töluvert mikið af sínum auð til að ná í milljónir blaðsíðna úr þessum gagnagrunni og birta þær almenningi; það gerði að verkum að möguleikinn stórjókst, í hinum akademíska heimi, til að rannsaka hvernig dómsmál hafa farið fram í Bandaríkjunum. Svo gerði þetta það líka miklu ódýrara fyrir almenning í Bandaríkjunum að geta rekið sín dómsmál og varið hagsmuni sína fyrir dómi. Þetta er alveg ótrúlega mikilvægur þáttur og þó svo að þetta sé í raun dómsskjalagagnagrunnur þá skiptir þetta jafn miklu máli.

Það að einstaka blaðamenn fari einhverja fjallabaksleið að því að ná í opinber gögn og opinbera þau fyrir almenning og allir njóti góðs af — það er náttúrlega mikilvægt og gott að það sé gert, en það er óskilvirk leið og vond nýting á tíma fólks sem ætti kannski frekar að vera að verja hagsmuni almennings eða rannsaka glæpi eða hvað það nú er. Við ættum að leitast við það, bæði hér á landi og alls staðar í heiminum, að uppræta þessa óþörfu nauðsyn. Frumkostnaðurinn við að skrá þessi gögn er einhver, en jaðarkostnaðurinn við að afrita þau, í hvert skipti sem einhver óskar eftir þeim, er svo til enginn. Það kostar auðvitað eitthvað að halda tölvum gangandi og halda einhvers konar kerfisstjórn þar á, en í stóra samhengi málanna þarf hvort eð er að reka þessa gagnagrunna fyrir þá lögmætu starfsemi sem ríkisskattstjóri og aðrar stofnanir ríkisins þurfa hvort eð er að sinna. Það að opna þetta fyrir almenningi hefur svo til engan aukakostnað í för með sér.

Þar að auki: Það kostar í dag 140.000 kr. rúmlega að skrá nýtt einkahlutafélag sem er að mínu mati allt of há upphæð samanborið við t.d. Þýskaland þar sem þetta kostar 10 evrur, eða Bretland þar sem þetta kostar 15 pund. En þessi mikli kostnaður ætti að ná vel yfir þann litla kostnað sem hlýst af því að taka rafræn gögn sem eru afhent á stöðluðu formi og setja þau inn í opinberan gagnagrunn, sem þarf hvort eð er að gera. Þegar sá kostnaður er farinn þá er ekki lengur hægt að halda því fram að það sé kostnaður sem falli á stofnanir ríkisins af því að tryggja almenningi óheft aðgengi að þessu.

Það sem við græðum aftur á mót á því að þetta sé almennt aðgengilegt öllum alltaf er t.d. að þetta auðveldar viðskipti milli fyrirtækja, einkum þegar fyrirtæki starfa milli landa. Það gerir þau viðskipti ódýrari og öruggari. Nú höfum við alls konar reglur sem gera þá kröfu að maður þekki sinn viðskiptavin. Það er að hluta til til þess að koma í veg fyrir peningaþvætti og hvers konar misnotkun, einhvers konar óeðlilega fjármálagjörninga. Þegar fyrirtækjaskráin er opinber og eignarhaldið er þekkt, og stjórnendur fyrirtækja eru þekktir, er rosalega erfitt að færa rök fyrir því að um einhvers konar vitundarleysi hafi verið að ræða þegar fólk er í raun meðsekt í því að taka þátt í ólöglegum athöfnum.

Sömuleiðis gerir opnun fyrirtækjaskrár allt eftirlit, bæði almennings og fjölmiðla og hverra sem það vilja viðhafa, með opinberum innkaupum og kannski sér í lagi útboðum, auðveldara. Hægt er að tryggja að þau séu rekin á réttum forsendum og miklu auðveldara verður að sinna slíku eftirliti, enda koma allir hagsmunir málsins fram með mjög skýrum hætti.

Ég vil meina að það að gera Fyrirtækjaskrá Íslands gjaldfrjálsa verði gott skref í átt til gagnsæis. Í dag er unnið að því hjá ríkisskattstjóra, skilst mér, að setja skrána rafrænt á netið á þann hátt að hægt sé að fara inn í einhvers konar vefverslun og kaupa gögnin sem þar er að finna. Hafandi starfað sem forritari til ansi margra ára og hafandi fengið ágætisinnsýn inn í vefverslanir og fyrirtækjaskrár, út af minni síðustu vinnu, og opinber innkaup vil ég meina að kostnaðurinn við slíkt vefsölukerfi, með allri þeirri flækju sem felst í því að þurfa að taka á móti kreditkortafærslum og vinna úr því öllu og vera með körfu og pantanir og allan þann pakka, verði ekki svo mikill að öll skjalakaup á næstu 10 árum — vegna þess að sumir munu veigra sér við því að kaupa, vegna þess að fjölmiðlar geta ekki keypt fyrir öll þau fyrirtæki sem þeir vilja skoða, og bara vegna þess að það er rosalega margt sem fólk sleppir að gera ef það kostar peninga — nái ekki upp í þann kostnað sem er af því að búa til þetta sölukerfi.

Aftur á móti eru nú þegar til allir þættir þess að birta bara opinberlega og leyfa hverjum sem er að nálgast þetta. Þar sem þetta er til, þar sem þarf hvort eð er að skrá þetta, þar sem þarf hvort eð er að halda utan um þennan gagnagrunn og kosta tilurð og viðhald á honum, þá finnst mér ekki vera nein góð rök fyrir því að halda fólki utan við hann, sérstaklega á grunni peningalegra takmarkana. Þegar svona gjöld eru lögð til þá er í mörgum tilfellum einhver skýring á þeim, einhver raunverulegur kostnaður sem fellur til. En þegar við erum að tala um rafræna gagnagrunna þá eru einhvers konar gjöld yfirleitt bara fyrirsláttur til að koma í veg fyrir eðlilegt aðgengi að auðlind sem allir gætu notið góðs af. Það eru vissulega einhver persónuverndarsjónarmið inni í þessu, en það skiptir engu máli vegna þess að ég get unnið mig fram hjá öllum persónuverndarsjónarmiðum ef ég á nógu mikinn pening í dag. Ég þarf bara að fara til ríkisskattstjóra og kaupa öll skjölin.

Það væri eðlilegt að segja bara: Þetta eru opinber gögn. Þetta er um þá gjörninga sem einstaklingar standa í gagnvart samfélaginu, sem fyrirtækjaeign er. Þar af leiðandi á bara að opna þetta upp á gátt, leyfa öllum að njóta góðs af, leyfa fólki að rannsaka þessi gögn eftir því sem vera skal. Kannski verður þjóðhagslegi ávinningurinn af því að hafa þessa skrá yfirleitt til töluvert meiri þá en er í dag. Ég vona að þetta frumvarp nái í gegn.