146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, þ.e. fæðingarhjálp. Ég ætla að byrja þessa stuttu ræðu á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir framsögu í þessu mikilvæga máli. Mig langar líka að árétta þá góðu sátt og þverpólitísku vinnu sem oft er hér á Alþingi. Þingmenn fimm flokka standa að þessu máli og það sýnir hvað okkur hv. þingmönnum mörgum hverjum, ég mundi halda flestöllum, er umhugað um úrbætur í mörgum velferðarmálum, m.a. fæðingarorlofsmálum.

Þetta mál er eitt af forgangsmálum Framsóknarflokksins á þessum þingvetri, en fyrsta forgangsmálið er heilbrigðisáætlun fyrir Ísland, sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom örlítið inn á í ræðu sinni og gerði grein fyrir því. Áhersla okkar Framsóknarmanna á velferðar- og heilbrigðismálin er mjög mikil. Við munum það líklega öll að flestallir flokkar töluðu um mikilvægi þess að efla velferðar- og heilbrigðismál í nýafstaðinni kosningabaráttu og fundu að það var mikill vilji meðal landsmanna til að unnið væri að því. Við erum að reyna það sem við getum til þess að svara því kalli.

Eins og fram kom í ræðu flutningsmanns er hér um að ræða breytingu á 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og breytingu á 22. gr. sömu laga. Snýr það að því að barn foreldra sem þurfa að sækja fæðingarhjálp utan heimabyggðar njóti jafnræðis á við þau börn sem fæðast í heimabyggð og að foreldrar geti tekið fæðingarorlof frá þeim degi sem barnið kemur í heiminn.

Samkvæmt því sem kom fram hjá framsögumanni málsins mun réttur foreldra til fæðingarorlofs framlengjast um sem nemur þeim tíma sem þeir dveljast utan heimilis fram til fæðingar ef þetta frumvarp til breytingar á lögunum verður samþykkt á Alþingi, sem ég vona svo sannarlega að verði.

Í 22. gr. laganna segir m.a. að réttur foreldra til fæðingarstyrks skuli jafnframt framlengjast. Það er mjög mikilvægt að horfa í báða þessa þætti því að ákveðinn hópur foreldra í fæðingarorlofi fær eingöngu fæðingarstyrk á meðan aðrir njóta fæðingarorlofs, sem er ákveðið hlutfall af tekjum viðkomandi, eins og lögin eru byggð upp núna.

Eins og fram kom í ræðu hv. flutningsmanns, Silju Daggar Gunnarsdóttur, langar mig að fara örlítið inn á þá heilbrigðisáætlun sem við Framsóknarmenn vorum með sem forgangsmál á þessum þingvetri. Með leyfi forseta ætla ég eingöngu að lesa upp markmið þeirrar tillögu, en það snýst um eftirfarandi:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga.“

Þar komum við inn á það að við erum með heilbrigðisstofnanir víða um landið. Tökum Vestfirði sem dæmi. Við getum í rauninni horft á Vestfirði sem eyland. Það eru erfiðir vegir á milli ýmissa byggðarlaga sem lokast oft yfir veturinn. Þar af leiðandi þurfa verðandi foreldrar oft að fara að heiman til að fá þá þjónustu sem þau þurfa á að halda til að gæta að öryggi barns og foreldra. Verið er að vinna að þessum breytingum til að koma til móts við þennan hóp í því frumvarpi sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir leggur fram.

Jafnframt segir í markmiði með þingsályktunartillögu um heilbrigðisáætlun að tekið verði tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða, sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við vinnu heilbrigðisáætlunar eigi að líta til þess hvort við höfum sóknarfæri til að nýta enn betur heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala, því að undanfarin ár og áratugi hefur sífellt meiri þjónusta verið að færast til höfuðborgarsvæðisins, og þá er oft og tíðum minni þjónusta og minni sérhæfing á landsbyggðinni. Það hefur orðið þróunin, kannski vegna starfsmannamála, og er ýmislegt um það að segja, og svo kannski vegna tækninnar. Ég þori ekki að segja um það.

Í vinnu við heilbrigðisáætlun eru m.a. fæðingar undir. Þar er mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig við getum aukið þjónustu við verðandi mæður á landsbyggðinni. Við vitum að á ýmsum stöðum á landsbyggðinni, eða einhvers staðar er það svo alla vega að það er ekki einu sinni sónartæki og foreldrarnir þurfa að fara til Reykjavíkur til að fara í sónar. Það er því mjög mikilvægt að hafa allt undir í heilbrigðisáætluninni til þess að skoða hvar við höfum sóknarfæri og samlegðaráhrif til þess að vinna að betri og bættari þjónustu við fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda, sama hver hún er víða um landið.

Í lok minnar stuttu ræðu vil ég líka benda á að það er mjög mikilvægt að þetta góða mál komi í hv. velferðarnefnd. Nú þegar erum við með breytingar eða frumvarp í hv. velferðarnefnd sem snýr að breytingum á fæðingarorlofslöggjöfinni, sem er eitt af forgangsmálum þingflokks Vinstri grænna. Það mál er komið í efnislega meðferð í hv. velferðarnefnd. Ég tel það styrk fyrir málin að hafa þau samtímis í nefndinni og jafnframt að vera búin að fá kynningu á þingmálaskrá hæstv. félagsmálaráðherra og fá að vita hvar áherslur hans liggja er varða fæðingarorlofsmálin, þannig að hægt sé að taka það mál til umræðu á sama tíma í hv. velferðarnefnd. Það eru mörg atriði sem horfa þarf á. Það er mjög mikilvægt að horfa á þau atriði sem snúa að því sem frumvarpið tekur á sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir leggur fram um að börn sem fæðast fjarri heimabyggð njóti til jafnræðis á við börn sem fæðast í heimabyggð.

En það eru fleiri þættir sem ég ætla að fara örstutt í sem þarf að horfa á og taka umræðu um, þ.e. ætlunarverk hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um tillögu Vinstri grænna í fæðingarorlofsmálum og frumvarp hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur um það sem við höfum farið yfir hér. Þar ætlum við að lengja fæðingarorlofið. Er pólitísk sátt um það? Viljum við hafa ákveðið gólf varðandi greiðslur, að þær verði ekki lægri en ákveðin upphæð þegar fólk fer í fæðingarorlof? Hvert er hámarkið sem við viljum hafa? Það er umræða sem við þurfum að taka. Það þarf að taka umræður um fæðingarstyrkinn, hversu hár hann á að vera. Hann hefur verið mjög lágur. Viljum viljum hækka hann? Það er mjög mikilvægt að horfa í það allt saman. Ég tel það verði mikil umræða um það.

Það var mjög mikil umræða um mál Vinstri grænna þegar það var til umræðu í þingsal um daginn þar sem fólk velti fyrir sér ýmsum þáttum. Ég og hv. þm. Halldóra Mogensen ræddum m.a. um þær áhyggjur sem við höfum haft af einstæðum mæðrum sem hafa sumar hverjar ekki nýtt rétt sinn í fæðingarorlofi að fullu því að þær hafa ekki haft aðstöðu til þess og hafa þurft að fara mjög snemma aftur út á vinnumarkaðinn. Það á við um þær einstæðu mæður þar sem faðirinn er ekki til staðar.

Við höfum líka verið sammála um að mjög mikilvægt er að stíga mjög varlega til jarðar í þeim efnum því að þetta snýst um jafnrétti. Þetta er eitt af stóru jafnréttismálunum okkar sem við höfum unnið stóra sigra í löggjöf á undanförnum árum og áratugum.

Ég ætla að láta þetta gott heita. Ég vona að umrætt frumvarp njóti velgengni í hv. velferðarnefnd og að við eigum góðar og miklar umræður um það og náum að afgreiða málin vel úr nefndinni til þeirra sem á þeim þurfa að halda.