146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Það er gott að heyra að við erum sammála og gott að heyra að fleiri hafi sterka trú á því að hægt sé að breyta kerfinu. Maður þarf fyrst og fremst að hafa trúna og heildarsýn og mjög mikla þolinmæði.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvað henni finnist um húsnæðiskostnaðinn sem við höfum báðar nefnt í ræðum okkar. Nú veit ég til þess að bæði Færeyingar og Grænlendingar niðurgreiða húsnæðiskostnað fyrir verðandi foreldra, bæði föður og móður, greiða hann að fullu þannig að fólk þarf ekki að greiða neitt þegar það fer til fæðingarstaðar, vegna þess að þessar þjóðir búa eins og við í dreifbýlu landi og konur þurfa oft að fara langt í burtu til að fæða börnin sín. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns varðandi það.