146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof.

110. mál
[16:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru allt mjög mikilvægar vangaveltur og eitthvað sem við þurfum að hugsa til. Ein af ástæðunum fyrir því að ég var ánægð að enda í velferðarnefnd er vegna þess að eitt af því sem ég held mest upp á við þetta starf er að fá tækifærið til að viða að sér mikilvægum upplýsingum til að geta svo mótað sér betur skoðanir á því hvernig best sé að hafa þetta, til þess að finna þetta samstarf, setja hugmyndirnar okkar saman og komast að góðum niðurstöðum. Ég hlakka til að skoða þetta mál betur og önnur mál tengd því af því það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Það hefur verið rætt hérna að ekki fæðast nægilega mörg börn hér á landi. Við þurfum að fjölga fæðingum og við þurfum að búa betur um verðandi mæður og fjölskyldur yfir höfuð.