146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:19]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil, líkt og aðrir sem fjallað hafa um umrædda þingsályktunartillögu um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, fagna því að tillagan sé fram komin og hrósa flutningsmanni, hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, fyrir hana. Þetta er mjög þarft mál. Ég mun styðja það og reyna að fá alla aðra til að styðja það.

Slæm geðheilsa grefur undan samfélaginu. Hún dregur úr atvinnuþátttöku. Hv. þingmenn hafa rætt brottfall úr skólum. Fram kemur í greinargerð með málinu að góð líðan nemanda sé mikilvæg fyrir árangur í námi. Það segir sig svolítið sjálft, en það er vert að nefna það líka. Slæm geðheilsa dregur líka úr hamingju fólks. Ekki má vanmeta þann þátt. Það hefur áhrif á svo marga þegar einn er veikur, hvort sem það er líkamlega eða andlega, slík veikindi áhrif á svo marga og dregur svo mikla orku frá mörgum.

Ef fólk fær ekki aðstoð hefur slæm geðheilsa mikinn kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir almannatryggingakerfið, löggæsluna, og því fylgja fullt af öðrum hlutum sem við kostum. Með því að bæta geðheilsu fólks þó að það kosti einhverja peninga þá eru þeir peningar svo fljótir að koma til baka. Ég mundi því segja að verkefni sem það að veita framhaldsskólanemendum geðheilbrigðisþjónustu þeim að kostnaðarlausu, sálfræðiþjónustu í framhaldsskólunum sé mjög samfélags hagkvæmt verkefni, ef við getum orðað það sem svo. Það er mjög gott mál.

Mig langar líka í framhaldi af þessu að grípa hérna aðeins niður í greinargerðina, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um úrbætur í menntun kemur fram að aðeins 44% íslenskra framhaldsskólanema ljúka námi á tilsettum tíma.“ — Það hlutfall er algerlega óásættanlegt.— „Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og þau eru þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf að mæta t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.“

Til viðbótar þessu nefni ég aftur sérstaka umræðu um heilbrigðisþjónustuna, sem ég held hafi verið í fyrradag, sem hv. þm. Guðjón S. Brjánsson var frummælandi að. Þar segir að geðheilbrigðisþjónusta eigi að vera fyrir alla alls staðar og að hún verði hluti af heilbrigðisþjónustunni á heilsugæslustöðvum um allt land. Það er mjög mikilvægt og stórt verkefni sem við þurfum að fara í, því að sjálfsvíg eru ein helsta dánarorsök ungra karlmanna. Ég vona að ég fari rétt með, en mig minnir að rætt hafi verið um að 50 Íslendingar féllu fyrir eigin hendi á ári hverju. Það er svakalega há tala. Ef við setjum hana í samhengi við slys í umferðinni og sjóslys þá vitum við að við höfum unnið alveg gríðarlega markvisst að því að draga úr umferðarslysum, auka bílbeltanotkun og alls konar fræðslu og það á líka við um sjóslysin. Það hefur verið farið í gríðarlega mikið átak til að draga úr þeim. Við höfum náð stórkostlegum árangri.

Nú er komið að geðheilsunni og þótt fyrr hefði verið. Staðan er slæm. Með því að byrja strax í framhaldsskólunum og gera sálfræðiþjónustu sýnilega, eins og hv. þm. og flutningsmaður Guðjón S. Brjánsson kom inn á áðan, þannig að hún sé viðurkennd og að það þyki ekkert að því að hlúa að andlegri heilsu alveg eins og okkur finnst ekkert að því að fara í leikfimi og hlúa að líkamlegri heilsu og fara í göngutúr — um leið og umræðan í fjölmiðlum er á sömu nótum, sýnileikinn er fyrir hendi og það er viðurkennt að fólk noti þjónustu hjá t.d. sálfræðingi, þá erum við á réttri leið.

Þó að sú breyting, þ.e. að tryggja aðgengi framhaldsskólanema að sálfræðiþjónustu þeim að kostnaðarlausu, kosti nokkrar krónur, og mun það eflaust koma fram í starfi nefndarinnar þegar nefndin fer að fá umsagnir og fleira, þá fáum við svo miklu meiri verðmæti í staðinn ef við getum byggt unga fólkið okkar upp og skilað því heilu og heilbrigðu út í lífið. Við höfum líka mikið talað um uppbyggingu menntakerfisins. Við þurfum að laga það og gera mikið þar. Það er alveg rétt. En ef þeim einstaklingum sem eru í menntakerfinu líður ekki nógu vel þá erum við að gleyma aðalatriðinu, þ.e. fólkinu. Kerfið er bara umgjörð hvort sem fólk er í tvö, þrjú, fjögur eða fimm ár í framhaldsskóla þá er hægt að reikna það allt fram og til baka, en ef fólk nær slökum árangri, þ.e. fellur úr náminu, líður illa, þá getum við samt breytt því og það kostar í sjálfu sér ekki mikið. Við eigum því tvímælalaust að gera það.

Ég vona að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu í velferðarnefnd og að við hér á Alþingi getum samþykkt það sem fyrst.