146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:32]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Forseti. Ég hafði lifibrauð af kennslu í íslenskum framhaldsskólum frá hausti 1998 allt fram til hausts 2016 er ég tók sæti á Alþingi. Á þessum tíma var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kenna milli 4.000 og 5.000 nemendum í þremur framhaldsskólum. Mér fannst ég vera í besta starfi í heimi. Það var fjölbreytt, unnið í skorpum, sem hentar mér vel, og það fól í sér mikil samskipti við fólk. Það var þó auðvitað ekkert alltaf tekið út með sældinni því að nemendur mínir voru jafn misjafnir og þeir voru margir. Sumir sköruðu fram úr á einhverjum sviðum, sumir á öllum sviðum. Sumir höfðu litla námsgetu. Sumir voru einstök ljúfmenni. Sumir voru ódælir. Sumum leið vel og sumum leið illa. Kannski voru sumir ódælir af því að þeim leið illa. Kannski leið þeim sem sköruðu fram úr illa. Ég sá ekki alltaf hvernig nemendum mínum leið. Sumir báru harm sinn í hljóði. Sumir gengur úr skaftinu, lentu í hinum svokallaða brottfallshópi.

Brottfall nemenda úr framhaldsskólum hefur mikið verið rannsakað og greint í lærðum greinum og skýrslum undanfarin misseri. Ég ætla nú ekki að vera langorður um hinar ýmsu ástæður brottfalls. Við vitum þó að fjölmargir nemendur búa við vanlíðan og sálarangist. Þeir eru í hópi þeirra sem helst vilja flosna upp úr námi.

Í gamla starfinu mínu kom stundum fyrir að nöfnum fækkaði í kladdanum hjá mér. Stundum vissi ég hverjar ástæðurnar voru, stundum ekki. Stundum voru einfaldar tæknilegar ástæður fyrir því. Ég horfði stundum upp á nemendur lúta í lægra haldi fyrir andlegum erfiðleikum. Þá hurfu nöfn úr kladdanum.

Eftir því sem ég best veit hefur komið fram í máli hv. þm. Guðjóns Brjánssonar reið Verkmenntaskólinn á Akureyri á vaðið árið 2012 þegar sálfræðingur í hálfu starfi var ráðinn til skólans. Þar var á ferðinni tilraunaverkefni sem naut sérstakra fjárveitinga. Það er skemmst frá því að segja að fjölmargir nemendur nýttu sér þá þjónustu og leyfi ég mér að fullyrða að margir hafi fengið mikinn og góðan stuðning í baráttu sinni við depurð og kvíða.

Frá síðasta hausti hefur umræddur skóli ekki fengið styrk til áframhaldandi sálfræðiþjónustu. Sú þjónusta liggur niðri þetta skólaár. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu bagalegt það er.

Ég fagna þessari tillögu þingmanna Samfylkingar og mun styðja hafa af öllum mætti. Hún mun ef hún nær fram að ganga hjálpa til við að bægja frá svartnætti í lífi unga fólksins, fólksins sem mun erfa land.

Ég vil benda hv. flutningsmönnum þessarar tillögu á nauðsyn þess að skólum verði tryggðar sérstakar fjárveitingar til frambúðar til þessa verks. Þeir skólar sem bjóða upp á sálfræðiþjónustu núna og eru nokkrir hafa, ef ég hef skilið það rétt, allir hlotið sérstaka tímabundna styrki til þess, enda hafa þeir ekkert bolmagn til að fjármagna slíka þjónustu með öðrum leiðum. Margumrætt reiknilíkan framhaldsskólanna gerir nefnilega ekki ráð fyrir starfi sálfræðinga í framhaldsskólum.

Að lokum vil ég benda á að við megum ekki gleyma þeim ungmennum sem kjósa að fara ekki í nám að loknum grunnskóla. Við verðum líka að ná til þeirra.