146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar umræður, sérstaklega vil ég leyfa mér að þakka hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni fyrir innsýn í hans persónulegu reynslu og þakka sömuleiðis hv. þingmönnum, sem er skólafólk og þekkir hvernig lífið er innan veggja skólans.

Það er dálítið sérkennileg reynsla fyrir okkur í allsnægtarsamfélaginu að við skulum vera að glíma við vandamál af þessu tagi. Eða kannski kemur það allsnægtarsamfélaginu alls ekkert við. Alla vega tekst okkur ekki nægilega vel, okkur sem erum eldri að nesta unga fólkið út í lífið til að ráða betur við ýmsar aðstæður sem blasa við. Við vitum að það er mikið áreiti á ungt fólk í dag frá morgni og fram á miðjar nætur alls staðar að úr umhverfinu, ekki bara úr nærumhverfinu heldur alls staðar utan úr veröldinni.

Okkar stærsta verkefni er að bregðast við þeim vanda sem við erum að glíma við nú þegar. En við eigum að hafa það hugfast hvað við getum gert til að bæta almenna líðan og fyrirbyggja að aðstæður sem þessar skapist, ef það er í mannlegu valdi, og að þörfin fyrir geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna sé svona mikil. Sálfræðingar innan veggja framhaldsskólanna starfa auðvitað að ýmsum verkefnum með nemendum. Þeir eru mjög örvandi og hvetjandi í skólastarfinu með kennurum og eru leiðbeinendur að því leyti til líka. Ég held að það að fá þá til liðs í skólunum sé mjög þarft. Þar er nefnilega lögð áhersla á að þetta séu starfsmenn skólanna en ekki utanaðkomandi aðilar, starfandi kannski annars staðar.

Hjúkrunarfræði og heilsugæsla í framhaldsskólum hefur líka verið nefnd. Hv. þm. Oddný Harðardóttir nefndi að kynsjúkdómar meðal framhaldsskólanema væri orðið vandamál að nýju eða vaxandi vandamál. Það er áhyggjuefni. Fræðsla á því sviði frá heilsugæslunni er orðin knýjandi.

Þetta eru allt viðfangsefni sem við munum þurfa að glíma við. Líklega tekst okkur ekki að innleiða þetta nema í skrefum. En ég tek undir það að þetta þarf að vera varanleg ráðstöfun en ekki til bráðabirgða, þó að hún sé ekki tekin nema í einhverjum áföngum, en að stjórnendur þessara skólastofnana sem bera mikla ábyrgð geti reitt sig á að nú séum við að sigla í ákveðnar áttir.