146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

63. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frumvörpum til laga, annars vegar um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og hins vegar frumvarpi til laga um breytingu á hlutafélögum, nr. 2/1995. Bæði þessi frumvörp mæla fyrir um upplýsingaskyldu endurskoðenda.

Fyrst vil ég gera stuttlega grein fyrir frumvarpinu um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þar er lagt til að bætt verði við 42. gr. laganna svohljóðandi ákvæði:

„Kjörnum endurskoðanda lífeyrissjóðs er skylt að svara fyrirspurn sjóðfélaga á ársfundi um allt sem kann að varða reikningsskil og fjárhagsleg málefni sjóðsins þegar slíkt má verða án tjóns fyrir sjóðinn og sjóðfélaga.“

Frumvarpið sem var lagt fyrir samhljóða þessu var lagt fyrir 145. löggjafarþing var ekki afgreitt. En með því að lífeyrisréttindi eru mjög oft stór hluti af fjáreignum einstaklinga, þótt skilyrt séu, er eðlilegt að sjóðfélagar geti fylgst með eignum sínum og réttindum. Beint eftirlit sjóðfélaga getur aldrei orðið en með því að endurskoðandi er trúnaðarmaður sjóðfélaga þykir rétt og eðlilegt að sjóðfélagar geti lagt fram spurningar til endurskoðanda um starfsemi lífeyrissjóðsins.

Með frumvarpinu er lagt til að kjörnum endurskoðendum lífeyrissjóða verði gert skylt að svara fyrirspurnum sjóðfélaga á ársfundum um reikningsskil og fjárhagsleg málefni sjóðanna.

Það frumvarp sem hér er mælt fyrir um breytingu á lögum um hlutafélög er efnislega samhljóða. Þar er lagt til að bætt verði við 91. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995, svohljóðandi málsgrein:

„Kjörnum endurskoðanda félags er skylt að svara fyrirspurn hluthafa á hluthafafundi um allt sem kann að varða reikningsskil félagsins og fjárhagsleg málefni þess með hliðsjón af ákvæðum 1. málsl. 1. mgr.“

Er þá vísað til 91. gr. laganna.

Gert er ráð fyrir því að lög þessi öðlist þegar gildi þegar þau hafa verið samþykkt á Alþingi.

Í greinargerð með breytingu á lögum um hlutafélög segir að þetta frumvarp hafi verið lagt fram á 145. löggjafarþingi en það var ekki afgreitt.

Eitt mikilvægasta eftirlitshlutverk í hlutafélögum er í höndum kjörinna endurskoðenda hlutafélaganna. Endurskoðendur eru kjörnir á hluthafafundum af hluthöfum. Það er mjög óeðlilegt að hluthafar hafi engan aðgang að endurskoðendum eftir að kjör hefur farið fram nema fyrir milligöngu stjórnar, en endurskoðendur hafa m.a. eftirlit með stjórnum og stjórnendum hlutafélaga. Með frumvarpinu er lagt til að kjörnum endurskoðendum félaga verði skylt að svara fyrirspurnum hluthafa á hluthafafundum um reikningsskil félaga og fjárhagsleg málefni þeirra. Ekki er gert ráð fyrir að þessari breytingu fylgi kostnaðarauki fyrir hlutafélög þar sem endurskoðendur sitja hluthafafundi.

Tilgangurinn með því að bæta þessu ákvæði í lög um hlutafélög er að auka vernd minni hluthafa í hlutafélögum. Sambærilegt ákvæði er í sænskum hlutafélagalögum.

Virðulegi forseti. Nú er það svo að orðið endurskoðun kemur fyrir í einhverju formi eigi sjaldan er 42 sinnum í hlutafélagalögum. Hluthafar kjósa endurskoðanda en eiga síðan aldrei aðgang að honum án milligöngu stjórnar. Það er í hæsta máta óeðlilegt. Því er lagt til að þetta eftirlitshlutverk verði með beinum aðgangi að endurskoðendum á hluthafafundum sem gætu verið hluthafafundir ellegar, eigi sjaldnar en árlega á aðalfundum félaga. Að öðru leyti skýra þessi ákvæði sig sjálf.

Ég legg til að báðum þessum frumvörpum verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar til efnislegrar meðferðar og vænti þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þingmenn síðan taki vel undir þetta því að ég tel að þetta sé vonum seinna komið fram.

Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu.