146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

fjárframlög í samgöngumál.

[13:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er hér með fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Við fjárlagagerðina og samþykkt Alþingis á fjárlögum skömmu fyrir jól var samkomulag milli allra þingmanna, sem síðan gekk eftir, um að bæta fjármunum í heilbrigðiskerfið, samgöngur og fleiri slík verkefni. Það kom síðan í ljós að vegna vandamála við tölvuskráningu skilaði vilji fjárlaganefndar sér ekki inn í kerfið með réttum hætti og þegar við samþykktum fylgirit frá ríkisstjórninni var það því samþykkt með þeim fyrirvara að fylgt skyldi eftir niðurstöðu fjárlaganefndar er varðaði samgöngu- og hafnamál. Nú erum við komin úr kjördæmaviku og höfum upplifað það að fjölmörg mál á þessum verksviðum hringinn í kringum landið eru ekki fjármögnuð, jafnvel verkefni sem eru samningsbundin, og eru nú í uppnámi.

Spurning mín er því þessi: Hyggst hæstv. forsætisráðherra fylgja þeirri niðurstöðu, annars vegar þingsins, samkomulagsins, og þeim fyrirvara sem síðasta ríkisstjórn setti við afgreiðslu þessara fjárlaga? Eða á þingið að horfa upp á það að vilji og samþykkt fjárlaganefndar, fjárlagavaldsins sem er hér á þinginu, eigi að færast til ráðuneyta, stofnana, jafnvel forstöðumanna og einstakra sviðsstjóra? Ég trúi því ekki að svo eigi að vera og vil því gjarnan fá skýr svör frá hæstv. forsætisráðherra um að það sem hér var samþykkt, í þessum þingsal, standi.