146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

fjárframlög í samgöngumál.

[13:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hefði óskað þess að hæstv. forsætisráðherra hefði verið skýrari í svörum því að afleiðingin af því að skilja þetta eftir óleyst er nákvæmlega það sem hæstv. forsætisráðherra benti á, að við hér í þinginu þurfum þá að fara að kalla til hvern fagráðherra fyrir sig inn í hverja einustu nefnd og fylgja því eftir að það sem hér var samþykkt standi. Afleiðingin af þessu öllu saman er að sá vilji sem birst hefur á þinginu undanfarin ár — og ég er sammála hæstv. forsætisráðherra í því að við eigum að horfa meira á stóru myndina og þingið, fjárlaganefndin og þingmenn eigi ekki að vera að krukka mikið í smáatriðunum, en það koma alltaf upp slík verkefni. Ef traustið milli framkvæmdarvaldsins og Alþingis rofnar þegar kemur að slíku, eins og gerðist á síðasta ári við samþykkt fjárlaga, verður fjárlagavinnan í framtíðinni mjög erfið. Þetta snýr ekki bara að okkur sem sitjum í stjórnarandstöðu, (Forseti hringir.) þetta er jafn mikið atriði fyrir stjórnarþingmenn sem og stjórnarandstöðuþingmenn að við séum ekki marklaus úti í kjördæmunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)