146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

stuðningur við ríkisstjórnina.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar maður á að byrja þessa umræðu. Hér er verið að vísa í orð mín um hughrif og þar var ég að tala um þau hughrif að rofnað hefði samfélagslegur sáttmáli í landinu, og snúið síðan út úr því eins og menn vilja. Ég nenni ekki í raun og veru að elta ólar við það þegar snúið er út úr orðum manns. En skoðanakannanir — við getum rætt skoðanakannanir í þingsal, það er kannski efni í langar umræður og taka þær þá bara reglulega, það koma svona þrjár í mánuði. Fyrir rétt tæpu ári voru Píratar með 40%, nú er annar flokkur að mælast stærstur í sumum könnunum og enn aðrir flokkar í öðrum. Ég veit ekki hvort það gagnast þjóðfélagsumræðunni mikið að vera að velta fyrir sér skoðanakönnunum.

Í þeim tölum sem hv. þingmaður tekur hér saman sleppir hann að geta þeirra sem taka ekki afstöðu eða eru þeirrar skoðunar að þeir séu hvorki með né á móti. Þegar spurt er hvort ég hafi skipt um skoðun varðandi þær skýrslur tvær sem hv. þingmaður veltir upp þá vil ég leyfa mér að vekja athygli á því að það verða sérstakar umræður um þau mál síðar í dag þar sem hv. þingmaður getur látið til sín taka. Ég fagna tækifærinu til að ræða áhrif leiðréttingarinnar og ég fagna sömuleiðis tækifærinu til að setja sjónarmið mín fram varðandi hin málin. Hv. þingmaður getur verið alveg rólegur yfir því að ég missi ekki svefn yfir því hvernig skoðanakannanir standa. Annað af þeim fyrirtækjum sem vísað er til mældi fylgi við minn flokk undir 22% þremur dögum fyrir kosningar en við enduðum í 29%.