146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

stuðningur við ríkisstjórnina.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ættum kannski að taka lengri tíma í að ræða þá ríkisstjórn sem hv. þingmaður tekur hér upp hanskann fyrir, þá sem lagði fyrir þjóðina samningana um Icesave [Hlátur í þingsal.] og fékk 98% þjóðarinnar á móti sér. Þegar sú ríkisstjórn hafði fengið 98% þjóðarinnar á móti sér í atkvæðagreiðslu og hafði að öðru leyti gjörsamlega mistekist það ætlunarverk sitt að reisa skjaldborg um heimilin og standa fyrir norræna velferð — já, þá var ég þeirrar skoðunar að hún ætti að fara frá. Reyndar var það ekki samþykkt hér í þingsal en það gerðist bara við næsta tækifæri, sem var við kosningarnar. Þá var þeim tveimur flokkum gjörsamlega hafnað, svo eftirminnilega að það fer í sögubækurnar. Reyndar væri hv. þingmanni, sem er í forsvari fyrir Samfylkinguna, kannski nær að minnast þess að fallið hélt bara áfram. Kannski út af málflutningi eins og hér er boðið upp á. (LRM: Fall er fararheill.)