146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

kynjahalli í dómskerfinu.

[13:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki rétt að halda því fram að maður hafi verið þrunginn fögnuði við að sjá nýjan ríkisstjórnarsáttmála, en þó var þar eitt og eitt atriði sem maður gladdist yfir. Eitt þeirra var setningin í samstarfsyfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur réttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.“

Þetta þótti okkur ánægjulegt, okkur sem erum jafnréttissinnar og femínistar í íslenskum stjórnmálum og töldum þar að það væri til marks um að hér hefði orðið til þverpólitísk stemning fyrir því að hafa jafnréttis- og kynjajafnréttismál á dagskrá. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar styðja átak til að jafna hlutfall kynjanna HeForShe, en svo bregður svo við að hæstv. dómsmálaráðherra segir að aukið vægi kynjasjónarmiða við skipan dómara sé ekki til velfarnaðar fallið.

Það ber að halda því til haga að Sameinuðu þjóðirnar, hvorki meira né minna, beindu þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda í fyrra að fjölga tafarlaust konum í Hæstarétti og nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allra mismununar gagnvart konum sendi í mars 2016 þessi tilmæli til íslenskra stjórnvalda þar sem einnig var rætt um það almennt hvað bæri að gera betur í jafnréttismálum á Íslandi. Hún lagði sérstaklega áherslu á aðgerðaáætlun vegna ofbeldis gegn konum og því að fjölga konum m.a. í lögreglu og Hæstarétti.

Hæstv. núverandi forseti sagði hér á þingi 15. mars 2016, með leyfi þess sama forseta:

„En varðandi jafnréttið og hlutverk kvenna t.d. í Hæstarétti hefur komið skýrt fram hjá þeirri sem hér stendur að það er óviðunandi að ekki gangi ekki hraðar í þá veru að fjölga konum í Hæstarétti.“

Svo segir dómsmálaráðherra hér á dögunum:

„Nú veit ég ekki um hversu marga er að ræða í þessu tilviki, en ég hef engar áhyggjur af öðru en að konum fjölgi í dómarastétt. […] Ég tel enga þörf á að grípa inn í með einhverjum sértækum aðgerðum að þessu leyti.“

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af kynjahlutföllunum í dómskerfinu? Ef svo er ekki, hvernig telur ráðherrann (Forseti hringir.) hún geti rökstutt þá afstöðu sína með hliðsjón af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?