146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég geri hér að umræðuefni þá skýrslu sem var lögð fram á þinginu nú í janúar, skýrslu frá fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána. Hér er um að ræða skýrslu sem ég ásamt átta öðrum þingmönnum óskaði eftir þann 15. október 2015, en hún var lögð fram 19 mánuðum síðar. Það er svo sjálfstætt umræðuefni að ræða hversu langan tíma það tók að setja saman þessar átta blaðsíður sem þó eru fullar af athugasemdum við skýrslubeiðendur fyrir að hafa yfir höfuð lagt fram beiðnina um skýrsluna — hvurs lags spurningar þetta séu. Í sjálfu sér er það áhugavert rannsóknarefni að velta því fyrir sér hver upplýsingaskylda framkvæmdarvaldsins er almennt gagnvart löggjafarvaldinu.

Einhverjir kynnu að segja, og einhverjir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa sagt að ekki sé þörf á þessari skýrslu, allt hafi legið fyrir. Ég held einmitt að þegar tekin er ákvörðun um að veita hátt í 80 milljarða, 72 milljarða af peningum sem innheimtir eru í gegnum skattkerfið með bankaskatti og dreifa þeim til landsmanna með þeim hætti sem hér var gert sé full ástæða til þess að ræða það hvernig til tókst.

Þetta er auðvitað ekki það eina sem síðasta ríkisstjórn gerði í húsnæðismálum, mér finnst mikilvægt að það komi fram. Hér náðist góð samstaða um frumvörp fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra um úrbætur í húsnæðismálum fyrir m.a. leigjendur, en leiðréttingin var auðvitað stærsta mál síðasta kjörtímabilsins. Þar liggur fyrir að þau 10% landsmanna sem hæstar höfðu tekjurnar fengu u.þ.b. 30% af þessum 72 milljörðum af skattfé, það voru 10 tekjuhæstu prósentin.

Þau 10% Íslendinga sem mestar eignir eiga, sem að meðaltali eiga 82,6 milljónir kr. í hreinni eign, fengu tæplega 10 milljarða úr ríkissjóði gegnum leiðréttinguna. Það eru því ekki litlar fjárhæðir sem hér var sýslað um. Stærstur hluti þeirra rann ýmist til þeirra sem mestar hafa tekjurnar og mestar eiga eignirnar.

Aldursskiptingin er líka áhugaverð því að fram kemur í öllum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram um þessa aðgerð að þeir Íslendingar sem eru 56 ára og eldri fengu 26,4 milljarða af þessum 72 milljörðum. Það er verulegur hluti, á meðan unga fólkið sat eftir. Unga fólkið sat eftir og við þingmenn fáum stanslaust bréf, spurningar, fyrirspurnir frá ungu fólki sem er að glíma við húsnæðismarkaðinn og bíður eftir því að aukin úrræði bætist við ýmist á leigumarkaði eða eignamarkaði.

Fram kom í annarri skýrslu, sem lögð var fram hér á síðasta kjörtímabili frá hæstv. þáverandi fjármálaráðherra að beiðni þingmanna Samfylkingar um kynslóðareikninga, að það er sá hópur sem við hefðum átt að horfa sérstaklega til. Sá hópur sem er ungur nú um þessar mundir á erfiðara með að komast inn á fasteignamarkaðinn. Hann á erfiðara með að safna fyrir innborgun í íbúð, m.a. vegna þess að tekjur hans hafa setið eftir. Þess vegna gerðum við líka athugasemdir við það úrræði sem kallað var fyrsta fasteign hjá síðustu ríkisstjórn, þar sem tekjuhæstu einstaklingarnir í hópi ungs fólks fengu sérstakan skattafslátt. Því miður er það svo að miðgildi ráðstöfunartekna hjá hópnum 25–34 ára er 300 þús. kr., þannig að sá hópur mun ekki fullnýta það úrræði.

Auðvitað vekur það athygli að nú hefur ný ríkisstjórn tekið við völdum og setið hér í fimm vikur og ekki er orð um húsnæðismál í stjórnarsáttmálanum.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji að markmið leiðréttingarinnar hafi náðst, að nóg sé að gert í húsnæðismálum. Telur hann að það hafi verið hluti af markmiðum að þeir sem mestar tekjurnar höfðu og mestar eignirnar áttu skyldu fá langstærstan hluta af þeim fjármunum sem varið var til leiðréttingarinnar? Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði? Ef hann hefur áhyggjur, hví er ekki minnst á þau málefni í stjórnarsáttmálanum?

Við sjáum það sem lesum þessi gögn og þessar skýrslur að þarna tóku eldri hóparnir, ríkari hóparnir, tekjuhærri hóparnir, stærstan hluta af þessum peningum sem aflað var í gegnum skattkerfið í ríkissjóð og eftir situr tekjulægri hópurinn og unga fólkið. Það er alvarlegt mál, herra forseti.