146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:14]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er margt hægt að segja um húsnæðismarkaðinn og það sem gert hefur verið á undanförnum árum. Hér er sjónum beint að leiðréttingaraðgerð fyrri ríkisstjórnar, sem var eitt helsta kosningamál alþingiskosninganna 2013. Hvernig ætla menn að takast á við þá staðreynd að skuldastaða íslenskra heimila er orðin að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli, yfir 100% af landsframleiðslu? Hvernig ætla menn að takast á við það; fyrri aðgerðir höfðu ekki dugað; 110%-leiðin, dómar vegna gengismála sem höfðu þó fengið flýtimeðferð þótt allt of seint væri o.s.frv.? Í stjórnarsáttmála sem gerður var fundin góð leið milli stefnu stjórnarflokkanna sem tóku við og var henni hrint í framkvæmd með því sem við höfum kallað leiðréttinguna.

Fyrir þeirri aðgerð voru fern rök, fyrst og fremst efnahagsleg. Í fyrsta lagi hin háa skuldsetning heimilanna dró úr krafti í efnahagslífinu. Í öðru lagi voru það réttlætisrök vegna þess að þessar fyrri sértæku aðgerðir höfðu einfaldlega ekki skilað nægum árangri. Jafnræðisrök, að ekki ætti að fara eftir lánaformi hvers konar aðgerðir eða aðstoð menn gætu fengið. Og svo loks sanngirnisrök, vegna þess að tjón almennings af bankahruninu, afleiðingin af falli fjármálafyrirtækjanna var orðin að sjálfstæðum skuldavanda heimilanna.

Við vorum með samsetta aðgerð, annars vegar niðurfærslu höfuðstólsins og hins vegar leið til þess að leggja séreignarsparnað inn á lán til uppgreiðslu lána. Enn nýta hátt á fjórða tug þúsunda heimila sér séreignarsparnaðarleiðina enda var hún vegna góðrar niðurstöðu framlengd um tvö ár.

Ég vek athygli á því að þrátt fyrir allt sem sagt var um leiðréttinguna reyndist hún enginn verðbólguvaldur í efnahagslífinu, en það voru ein helstu rökin gegn þessari aðgerð.

Leiðréttingin var heldur ekki tekjujöfnunaraðgerð vegna þess að sú skýrsla sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi dregur fram hvernig niðurstöður leiðréttingarinnar skiptust niður á tekjutíundirnar og ekki annað hægt en benda á það. Það var aldrei hugsað sem tekjujöfnunaraðgerð. Það hlaut að vera aðgerð sem beint var að þeim sem skulduðu, áttu heimili o.s.frv. Með nákvæmlega sama hætti höfum við ekki verið að velta því mikið fyrir okkur hvert hinar sérstöku vaxtabætur norrænu velferðarstjórnar þess tíma rötuðu. Auðvitað rötuðu þær ekki til annarra en þeirra sem greiddu vexti vegna húsnæðislána.

Að því leytinu til er fróðlegt að menn skuli leggja svona mikið upp úr því hvernig þessi aðgerð, sem er svo skýrlega húsnæðisaðgerð vegna skuldsettra heimila, efnahagsaðgerð, hafi brotnað niður á einstakar tekjutíundir og sagt: Sjáið hvernig þetta fólk, þessi ríkisstjórn, fer með þessa miklu fjármuni, þegar við setjum það í samhengi við tekjujöfnuð í samfélaginu.

En af hverju er þá bara spurt um þessa 80 milljarða og viðbótarskattafslátt, sem hefði fleytt þessu langt yfir 100 milljarða? Af hverju er bara spurt um þessa 100 milljarða á síðasta kjörtímabili? Af hverju tökum við ekki bara alla skattpeninga og spyrjum: Hvernig beitti ríkisstjórnin skattfé, fjárlögum ríkisins, til þess að koma til móts við þá sem minna hafa milli handanna og til þess að beita sér í þágu tekjujöfnunar í samfélaginu?

Þá dregst upp allt önnur mynd en menn fá út úr þessari skýrslu, nefnilega sú að við settum vaxandi fjármuni í almannatryggingakerfið á hverju ári, þannig að við höfum líklega sett rúmlega 300 milljarða á kjörtímabilinu í almannatryggingar. Við hækkuðum réttindi á hverju einasta ári og drógum úr skerðingu.

Svo er líka hægt að spyrja sig ef menn vilja fara út í það: Hvernig komu aðrar fyrri aðgerðir við tekjutíundirnar? Hvernig ætli t.d. 110%-leiðin hafi komið út fyrir þessi 73 þúsund heimili með húsnæðisskuldir? Jú, hún rataði bara til 7.300 heimila, hin voru skilin eftir.

Við erum með dæmi úr aðgerðum fyrri ríkisstjórnar þar sem eitt heimili með 1,3 milljónir í tekjur fékk 106 millj. kr. niðurfærslu — eitt heimili, rúmlega 100 milljónir færðar niður. Hvernig ætli það hafi komið út í tekjujöfnunartilliti sem hv. þingmaður er að reyna að gera að umtalsefni í tilefni af þessari skýrslu?

Ég vek athygli á því að við höfum áður gefið út skýrslur og við vorum með útreikninga í frumvarpinu á því hvernig aðgerðin myndi heppnast. Ég segi fullum fetum: Þessi aðgerð heppnaðist frábærlega. Hún var aldrei hugsuð sem tekjujöfnunaraðgerð. Þegar vel er að gáð má sjá (Forseti hringir.) í samanburði við önnur Norðurlönd að við höfum náð langtum meiri árangri en aðrir sem enn sitja því miður eftir með miklar skuldir á heimilum víða um Norðurlönd.