146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:29]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Það gekk á ýmsu í íslensku efnahagslífi á árunum 2008 og 2009. Það er greinilega nauðsynlegt að rifja það aðeins upp. Gengi íslensku krónunnar hrapaði, verðbólga fór á skrið og skuldir heimilanna fóru upp í nálægt 130% af vergri landsframleiðslu. Í kjölfarið var ráðist í ýmsar aðgerðir sem skiluðu þó mismiklum árangri. Embætti umboðsmanns skuldara var komið á fót, greiddar voru út sérstakar vaxtabætur, 110%-leiðinni var ætlað að létta undir með skuldugum heimilum og gengistryggð lán voru dæmd ógild og færð niður. Eftir sátu tugþúsundir heimila með verðtryggð húsnæðislán en þáverandi ríkisstjórn hafði tilkynnt að ekkert frekar yrði aðhafst í skuldavandamálum heimilanna. Um þau mál var einmitt kosið sérstaklega 2013 og ráðist í aðgerðir í kjölfarið.

Hv. fjármálaráðherra skilaði í júní 2015 skýrslu um niðurstöðu þessarar aðgerðar. Þar kom fram hið augljósa, sem hefur í raun alltaf legið fyrir: Þeir sem skulduðu í húsnæði sínu fengu meira út úr skuldaniðurfærslunni en þeir sem skulduðu lítið eða ekkert. Þetta er nú stóri sannleikurinn í þessu máli öllu saman.

Sú skýrsla sem hér er til umfjöllunar er samantekt á dreifingu á höfuðstólslækkuninni miðað við tekjur og eignastöðu 2014 óháð því hvort framteljendur hafi átt fasteign eða hvort þeir skulduðu yfir höfuð í íbúð sinni. Við gætum þá tekið næst fyrir skýrslu um áhrif greiðslu barnabóta á þá sem eiga ekki börn. Það liggur þá beinast við. Enda segir á nokkrum stöðum, virðulegur forseti, í skýrslunni sjálfri að það þjóni litlum tilgangi að skoða dreifingu þessara tilteknu aðgerðar gagnvart þeim sem ekki höfðu orðið fyrir áföllum í kjölfar verðbólgunnar á árunum 2008 og 2009.