146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

[14:36]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegi forseti. Var það nokkur furða að fjölskyldur sem voru á vonarvöl, voru við það að flæmast burt af heimilum sínum og missa allt sem þær áttu, fögnuðu því hálmstrái, þeirri von sem þeim var gefin á sinni tíð; að skuldum yrði af þeim létt og hagur þeirra verst settu bættur í raun? Var nema von að sá fallegi boðskapur sem hljómaði svo vel úr munni leiðtoga þáverandi ríkisstjórnar heillaði fólk og kjósendur? Sem hann gerði svo eftirminnilega. Víst sagði forsætisráðherra að leiðréttingin væri náttúrlega ein og sér alger snilld. Hann sagði líka að hún leiddi til tekjujöfnuðar enda kæmi hún hlutfallslega langbest út fyrir þá tekjulægri. Hún líktist að sögn höfundanna mest krónutöluhækkunum í kjarasamningum. Fullyrt var að leiðrétting þeirra 10% sem lægstar hefðu tekjurnar myndu nema rúmlega 60% af árstekjum þeirra, en bara 8% hjá þeim 10% sem hæstar hefðu tekjurnar. Staðhæft var sömuleiðis að dreifing leiðréttingarinnar eftir tekjum yrði til muna jafnari en dreifing fyrri úrræða.

En var þetta raunin? Og voru þá ekki höfundarnir upp með sér yfir þessum fjármálagjörningi aldarinnar, jafnvel á heimsvísu eins og fullyrt var óhikað? Fram hefur komið hvernig þetta ógæfulega inngrip hafnaði hjá þeim sem síst skyldi og þjónaði þannig þessum rótgrónu sérhagsmunaflokkum, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, vel. Skýrslunni var stungið ofan í skúffu og hausnum í sandinn og vonast eftir skárri tíð, rétt eins og strútnum varð á forðum daga.

En nú lifum við aðra tíma. Almenningur vill ekki lengur una óvönduðum vinnubrögðum, tvöfeldni og skrumskælingum. Landsmönnum þúsundum saman er misboðið, íslenskur almenningur (Forseti hringir.) skynjar nefnilega samhengi hlutanna, nokkuð sem stjórnmálamenn vanmeta stöðugt. Stjórnmálamenn eiga að tileinka sér viðtekið siðferði (Forseti hringir.) og bera virðingu fyrir leikreglum. Og væri ekki ráðlegt fyrir ríkisstjórnina að temja sér það sem einhverjum þar á bæ (Forseti hringir.) ætti að vera tamt á tungu, að ástunda minna fúsk, minna drasl og minna lélegt?

(Forseti (SJS): Forseti vill biðja þingmenn að gæta að tímamörkum.)