146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessum mikilvæga þætti málsins, þ.e. þeirri staðreynd að ráðherra í ríkisstjórn Íslands ákvað að halda upplýsingum frá almenningi í aðdraganda kosninga. Þannig var það. Það var ákvörðun sem hæstv. ráðherra tók. Það hefur raunar komið fram í hans eigin máli, þótt hann sé í dálítið forhertari gír akkúrat núna, að hann telji að það hafi verið mistök af hans hálfu að birta ekki skýrsluna mun fyrr og þá áður en gengið var til alþingiskosninga í október síðastliðnum. Það er a.m.k. niðurstaða umboðsmanns Alþingis í svari við mínu erindi er laut að siðareglum.

Ég vil þá bara spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi skipt um skoðun á því að um mistök hafi verið að ræða í embættisfærslu hans því að með opin augun ákvað hann, Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra, að leggja skýrsluna ekki fram. Hvað olli þeirri ákvörðun? Hver voru rökin bak við þá ákvörðun að halda upplýsingunum frá almenningi?

Starfshópurinn skilaði 13. september og skýrslan var birt 6. janúar. Þetta eru staðreyndir málsins. Siðareglur eru ekki settar til þess að Bjarna Benediktssyni eða einhverjum öðrum ráðherra í ríkisstjórn Íslands líði betur í vinnunni. Það er ekki þannig. Stjórnsýslulög eru heldur ekki sett til þess að stjórnsýslunni líði betur í vinnunni, eða ráðherrunum. Þetta eru allt saman regluverk sem við setjum til þess að almenningur sé varinn gagnvart þeim sem kunna illa að fara með vald. Það er nákvæmlega það sem við erum að horfast í augu við hér. Ráðherra í ríkisstjórn Íslands tekur um það ákvörðun að halda upplýsingum frá almenningi, upplýsingum sem sannarlega höfðu áhrif á umræðuna í aðdraganda kosninga, og það, virðulegur forseti, dugar ekkert annað fyrir Alþingi Íslendinga, í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur sagt það í sjónvarpsþætti að þetta hafi verið mistök, en að hann sem sækir umboð sitt til Alþingis biðji það sama Alþingi afsökunar.