146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Með leyfi forseta vil ég lesa úr þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vitna í skýringar með henni um traust þjóðarinnar á stjórnmálamönnum. Í þingsályktunartillögunni stendur m.a. þetta:

„Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Í skýringum stendur að grunnur fulltrúalýðræðisins verði að vera trúnaður, traust, gagnsæi og heiðarleiki. Grunsemdin ein sé næg til þess að trúnaðarbrestur verði og því verði stjórnmálamenn ætíð að haga orðum sínum og athöfnum út frá trúnaðarskyldum sínum við land og þjóð. Þingið sé hugsað sem vettvangur rökræðu um almannahagsmuni en stjórnmálin hafi þvert á móti oft einkennst af kappræðu og átökum þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn og sannfæra áheyrendur. Slík stjórnmál séu nánast dæmd til að þess að vera ófagleg því að niðurstöður ráðast af aflsmunum fremur en góðum röksemdum sem byggjast á traustum upplýsingum.

Ég minni á að þingsályktunartillagan var samþykkt samhljóða með 63 atkvæðum allra þingmanna. Ég rifja þetta upp hér til umhugsunar og bið hv. þingmenn að skoða orð hæstv. forsætisráðherra fyrr í umræðunni og þau orð sem hann hefur látið falla um þessa skýrslu í ljósi þessarar samþykktar Alþingis og einnig þá staðreynd að skýrslan var tilbúin í september en ekki birt fyrr en í janúar eftir kosningar og stjórnarmyndunarviðræður.

En hugsanlega er það svo að hæstv. forsætisráðherra átti sig vel á því að upplýsingar um skattsvik Íslendinga varði almannahag en mat hans sé að almannahagur felist í því að sem flestir kjósi Sjálfstæðisflokkinn og þess vegna hafi hann ekki birt skýrsluna í aðdraganda kosninga.