146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[15:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, þessa umræðu. Það er vel að hv. þingmaður vilji vekja máls á opnari og skilvirkari stjórnsýslu. Það er stöðugt ástæða til, virðulegi forseti, að bæta vinnubrögð og virkt aðhald. Hæstv. ráðherra hefur svarað þeim spurningum sem felast í helstu áherslum hv. þingmanns. Ég ætla ekki að bæta þar um eða reyna að leggja dóm á. En hæstv. ráðherra hefur sjálfur viðurkennt að æskilegt hefði verið að birta skýrsluna þá og þegar hún var tilbúin enda átti skýrslan fullt erindi við alla.

Ég vil leggja áherslu á samhengið sem skýrslan er unnin í, þ.e. að hún var hluti af viðamiklum aðgerðum og viðbrögðum síðustu ríkisstjórnar og var beint gegn meintum skattundanskotum, umfangi aflandsfélaga og notkun skattaskjóla. Það var mikil samstaða í þinginu um þessa aðgerðaáætlun stjórnvalda. Það er mikilvægt í þessari umræðu að það komi fram að viðbrögðin voru sterk og þau voru raunveruleg, m.a. með samþykkt laga þessa efnis og í samræmi við alþjóðlegt samstarf á þessu sviði. Þar að auki voru loks lögfestar reglur til að vinna gegn þunnri eiginfjármögnun.

Vel má vera að tilefni sé til að setja nánari reglur eða skýrari ramma um slík skýrsluskil — verður það þá vonandi og væntanlega tekið upp í viðkomandi nefndum — um tímarammann frá því skýrsla er afhent og þar til hún er birt opinberlega og þá algjörlega óháð því hver niðurstaðan er eða hvaða staða er uppi í pólitíkinni. Hins vegar eru niðurstöður skýrslunnar það mikilvægasta í öllu þessu máli í mínum huga og (Forseti hringir.) einfaldlega árétting á þeim vanda sem skattaskjólin eru og liður í því að uppræta hann.