146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

skil á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[15:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er margt tekið til og endurtekið að ráðherra segist hafa haft frumkvæði að skýrslunni þegar hann segir sjálfur í viðtali við RÚV að hugmyndin hafi orðið til í samræðu við efnahags- og viðskiptanefnd, svona til að hafa það á hreinu. Ég heyri hérna nýtt að efni hennar hafi verið gróflega kynnt í ríkisstjórn 7. október, það er ný dagsetning í tímalínuna þar sem við heyrðum í ræðustól 10. október að skýrslan væri væntanleg. Það gerðist ekki í þrjá mánuði í viðbót. Skýrslan hefur ekki fengið allt of litla efnislega umræðu. Það er alltaf verið að tala um þessi mál. Það er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að tala um þá ákvörðun ráðherra að skila ekki skýrslunni. Það er rosalega mikilvæg ákvörðun. Þetta er ákvörðun sem hann tók með yfirlýstum vilja, hefur sagt að það hafi verið mistök. Nú þurfum við að spyrja um afleiðingarnar af þeim mistökum.

Tveimur spurningum hefur ekki verið svarað, hvort innihald skýrslunni varði almannahag og hvort ráðherra hafi brotið siðareglur. Siðareglur sem voru sérstaklega samdar til þess að efla traust á stjórnsýslunni. Nú er verið að brjóta reglur sem áttu að efla traust. Fyrir mér kallar það bara á vantraust, ekkert annað.

Hér er útskýrt á málefnalegan hátt hverjar athafnir ráðherra voru, hvernig þær eru svik við kjósendur. Ég bið einfaldlega um svör um afleiðingarnar. Svoleiðis spurningar eru kallaðar „ömurleg umræða“. Það dæmir sig bara sjálft.

Við hérna leggjum ekki mat á það hvort efni skýrslunnar hefði haft áhrif á kosningarnar. Kjósendur gera það. Kjósendur voru sviptir þeirri ákvörðun. Það er það sem málið snýst um. Eigum við að vera bara sátt við það?

Við þurfum að glíma við það að svona vantraust, svona svik við kjósendur eiga að hafa afleiðingar. Ef þetta hefur ekki afleiðingar núna af hverju hefur þetta afleiðingar seinna? Þetta er rosalega alvarlegt mál. Þetta skiptir öllu máli varðandi trúverðugleika þingsins og trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.