146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, og lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Frumvarpið er á þskj. 185 og er 126. mál þingsins. Frumvarp þetta inniheldur tillögur sem miða að því að gera starfsmönnum fjármálafyrirtækja og annarra félaga á fjármálamarkaði kleift að tilkynna um brot, tilraun til brota eða möguleg brot á fjármálamarkaði. Þá miða tillögurnar að því að veita starfsmönnum vernd í starfi í kjölfar slíkrar tilkynningar, t.d. skuli halda leyndu nafni og öðrum persónugreinanlegum upplýsingum um þann sem tilkynnir um brot.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu verður sú lagaskylda lögð á fjármálafyrirtæki að setja upp ferla til að taka við tilkynningum frá starfsmönnum um brot, möguleg brot eða tilraun til brota. Slíkir ferlar skulu vera aðskildir öðrum ferlum innan fjármálafyrirtækis eins og t.d. ferlum regluvarða.

Þeir sem falið verður að taka við tilkynningum verða bundnir þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar í tilkynningu, þar á meðal um nafn þess sem tilkynnir um brot. Þagnarskyldan er víðtæk og gildir gagnvart öðrum starfsmönnum, stjórn, framkvæmdastjóra og utanaðkomandi aðilum. Einungis er gert ráð fyrir því að upplýsingum sem háðar eru þagnarskyldu megi miðla til Fjármálaeftirlitsins eða lögreglu sé mál þess eðlis að rétt þyki að það verði rannsakað af þeim aðilum.

Frumvarpið kveður á um að öll vinnsla persónuupplýsinga skuli vera í samræmi við persónuverndarlöggjöf og á það einnig við um upplýsingar sem varða þann sem tilkynntur er á grundvelli ákvæðanna. Þannig skal öllum persónugreinanlegum gögnum eytt ef auðséð er að tilkynning á ekki við nein rök að styðjast eða ef athugun ber það með sér að mögulegt brot hafi ekki átt sér stað eða ef tilkynning er einungis sett fram til þess að koma höggi á viðkomandi.

Þeim sem tilkynna í góðri trú skal tryggð vernd og ber fjármálafyrirtæki þá ábyrgð að veita viðkomandi vernd gegn öllu hugsanlegu misrétti sem rekja má til tilkynningarinnar. Hugtakið „misrétti“ er skýrt í greinargerð með frumvarpinu en með því er t.d. átt við fyrirvaralausa uppsögn, stöðulækkun, tilfærslu í starfi, opinbera nafngreiningu án samþykkis, einelti, ærumeiðingar eða annað sambærilegt.

Þó er rétt að árétta að sá sem tilkynnir verður að tilkynna brot í góðri trú og verndin nær því ekki til tilkynninga sem settar eru fram gegn betri vitund. Þá nær vernd ákvæðisins ekki það langt að fjármálafyrirtæki geti aldrei vikið starfsmanni sem tilkynnir um brot úr starfi sínu. Slíkt verður þó að vera af öðrum ástæðum en þeim að starfsmaður hafi tilkynnt um brot annars starfsmanns og ber fjármálafyrirtæki sönnunarbyrði hvað það varðar.

Brjóti fjármálafyrirtæki gegn skyldu sinni um að vernda starfsmann ber það skaðabótaábyrgð gagnvart starfsmanni og skal þá greiða honum skaðabætur sem taka bæði til fjártjóns og miska. Þessi réttindi starfsmanna samkvæmt ákvæðunum eru ófrávíkjanleg og má á engan hátt takmarka þau í ráðningarsamningi.

Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Sú breyting skyldar Fjármálaeftirlitið til að setja upp ferla og taka við tilkynningum um brot á fjármálamarkaði frá starfsmönnum fyrirtækja sem starfa á slíkum markaði. Ferlar Fjármálaeftirlitsins skulu vera aðskildir öðrum ferlum innan stofnunarinnar og tryggja að tilkynningar séu skráðar. Ef upplýsingar koma fram um persónu þess sem tilkynnir skulu þær fara leynt nema skylt sé að veita slíkar upplýsingar, t.d. við meðferð sakamála eða með dómsúrskurði. Þá er áréttað að vinnsla persónuupplýsinga skuli vera í samræmi við persónuverndarlög.

Frumvarpið byggir á CRD IV tilskipuninni eins og hún er oft nefnd. Í 71. gr. hennar er að finna reglu sem kveður á um að EES-ríkin skuli hafa í landsrétti sínum lagareglur sem skylda fjármálafyrirtæki til að hafa til staðar ferla til að taka við tilkynningum starfsmanna um brot. Þá kveður umrætt ákvæði tilskipunarinnar einnig á um að eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-ríkjunum skuli hafa slíka ferla. Við vinnslu frumvarpsins var horft til löggjafar á Norðurlöndunum, þ.e. Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Norðurlandaþjóðirnar hafa á síðustu misserum breytt löggjöf sinni með hliðsjón af efni 71. gr. CRD IV tilskipunarinnar. Efni frumvarpsins byggir að mestu á dönskum lagaákvæðum um sama efni.

Markmið frumvarpsins er að greiða fyrir tilkynningum um brot í starfsemi fjármálafyrirtækja en einnig að auka líkur á að hægt sé að upplýsa fyrr um brot sem eiga sér stað í starfsemi þeirra sem lúta opinberu eftirliti eða koma í veg fyrir þau. Reynsla annarra ríkja af lagareglum sem veita uppljóstrurum möguleika á því að tilkynna brot er jákvæð og má um það vísa til reynslu Norðmanna sem hafa haft slíkar lagareglur frá árinu 2006.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er frumvarpið til þess fallið að auka trúverðugleika og traust almennings á fjármálamarkaðnum, ekki síst ef vel verður að framkvæmd staðið samkvæmt þeim reglum sem frumvarpið mælir fyrir um. Því legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu svo og til 2. umr. í þinginu.