146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[15:24]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta frumvarp um að verja afhjúpendur innan fjármálakerfisins var satt að segja eitt af þeim örfáum málum sem var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem ég hafði einhverja minnstu von um að gæti gert eitthvað afgerandi jákvætt fyrir þjóðarhag, ég verð bara að viðurkenna það, enda einkennist þingmálaskráin af tómhyggju og í henni birtist í raun ekki arða af framtíðarsýn.

En viti menn, von mín um ágæti þessa frumvarps varð að vonbrigðum því að svo virðist sem ekki hafi verið tekið tillit til raunverulegrar upplifunar afhjúpenda. Þegar við lítum til afhjúpenda í gegnum tíðina á borð við Jeffrey Wigand, Edward Snowden, Chelsea Manning, Bill Binney, Thomas Drake, Ad Bos, Sergei Magnitsky og fleiri, Rudolf Elmer til dæmis, þá er eitt mynstur alveg kýrskýrt: Þegar fólk ákveður að ljóstra upp um misgjörðir annarra, í hvaða samhengi sem það er, er lífi þess eins og það hefur verið fram að því, nær undantekningarlaust lokið. Hvort sem það starfar innan eða utan fjármálageirans.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtækjum verði óheimilt að beita nokkurs konar refsiaðgerðum gegn afhjúpendum. En það er mjög illa skilgreint að svo verði ekki. Reyndin er sú að afhjúpendur þurfa að hafa tryggt félagslegt, sálfræðilegt og fjárhagslegt öryggi auk persónuöryggis, að sjálfsögðu, því að ýmiss konar valdbeiting og álag fylgir því að afhjúpa misgjörðir, sérstaklega þegar hagsmunirnir, einkum þeir fjárhagslegu, eru umtalsverðir.

Í frumvarpinu er gætt að fjárhagslegu öryggi í mýflugumynd en alls ekki með afgerandi hætti. Við verðum nefnilega að skilja að þegar fólk fylgir sannfæringu sinni og kemur upp um misgjörðir innan fjármálageirans er næsta víst að það muni ekki geta starfað framar í þeim geira. Hugsanlega eru atvinnuhorfur til framtíðar takmarkaðar, sérstaklega ef spyrst út hver hafi verið afhjúpandinn. Það þarf ekki endilega að vera þannig að það spyrjist út, þó svo að það sé bannað í þessu frumvarpi að uppljóstra um það, það þarf ekki að vera að það spyrjist út með þeim hætti að það sé rekjanlegt til þess sem uppljóstraði um það.

Því þarf að tryggja fjárhagslegt öryggi afhjúpenda með mun skýrari hætti en gert er í frumvarpinu og alls ekki að eftirláta bótafjárhæð Fjármálaeftirlitinu eins og virðist vera gert ráð fyrir. Fjármálaeftirlitið hefur svo til enga sérstaka reynslu af því að hugsa um velferð afhjúpenda.

Sálfræðilegt og félagslegt álag á afhjúpendur er líka töluvert því að gjarnan eru afhjúpendur með verkum sínum, með ákvörðun sinni um að upplýsa um einhverjar misgjörðir eða einhver brot, að taka stóra persónulega áhættu. Að ganga t.d. gegn yfirmönnum sínum, jafnvel gegn vinum sínum. Sú sterka réttlætiskennd sem þarf til að ganga í slíkt er ein og sér ekki næg til að afhjúpendur upplifi sig ekki einangraða. Því þarf að tryggja einhvern veginn að til sé viðunandi stuðningur, þá sérstaklega í heilbrigðiskerfinu en líka innan ramma þeirra fyrirtækja sem eru í fjármálageiranum svo að fólk verði ekki einangrað og verði fyrir félagslegum og sálfræðilegum skaða.

Síðasta atriðið, persónuöryggi, hefur sem betur fer ekki verið mikið vandamál á Íslandi svo ég viti til, að afhjúpendur misgjörða verði fyrir líkamlegu áreiti, en samt þyrfti að gæta að því að tryggja það með einhverjum hætti, enda hefur mjög víða farið illa fyrir fólki sem hefur afhjúpað einhverjar misgjörðir, sérstaklega fjárhagslegar, og má vísa til Sergei Magnitsky í því samhengi.

Þess má geta að frumvarpið snýst einungis um svokallaða innri afhjúpun þar sem afhjúpandi leitar til aðila innan sinnar stofnunar, en frumvarpið gerir enga tilraun til að setja ábyrgð stofnunarinnar í samhengi við hugsanlegt áframhald máls sem nýtur ekki eðlilegrar meðferðar innan húss. Ef ekkert verður af umkvörtuninni og ábendingunni innan húss er mjög algengt og eðlilegt að það gangi lengra, þ.e. ytri afhjúpun til yfirvalda, svo sem Fjármálaeftirlitsins í þessu tilfelli, eða ytri afhjúpun til fjölmiðla sem er gjarnan síðasta skrefið og jafnframt það erfiðasta, en það er skref sem afhjúpendur hafa verið neyddir til að stíga í fortíðinni.

Frú forseti. Ég vona að hægt verði að bæta úr þessu frumvarpi. Ég mæli sérstaklega með því að litið verði til þeirrar vinnu sem m.a. Guido Strack hefur gert hjá þýsku samtökunum Whistleblower Netzwerk. Herra Strack var sjálfur afhjúpandi á sínum tíma, kom upp um töluvert stórt fjármálamisferli innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þekkir hann því ágætlega til þeirra atriða sem ég hef nefnt hér á undan.

Það er merkilegt að tala, eins og hæstv. ráðherra gerði, um að lögin gildi ekki um fólk sem afhjúpar misgjörðir öðruvísi en í góðri trú. Það mætti svo sem halda ræðu um eðli sannleikans í þessu samhengi en það er erfitt eða sennilega ómögulegt að meta hvort einhver sé að afhjúpa brot í góðri trú eða ekki, en ljóst er að það er vel hægt að meta hvort brot hafi átt sér stað. Því er frekar furðulegt að setja það sem skilyrði að menn tilkynni um brot í góðri trú og ætti kannski frekar að tala um að skilyrt væri við það að raunveruleg og sannreynanleg brot hafi átt sér stað, að ekki sé verið að skálda hluti upp, t.d. til að reyna að koma höggi á vinnufélaga sína.

Í raun er hægt að tala mjög lengi um afhjúpendalöggjöf. Slík löggjöf hefur verið lögð fram áður á Alþingi á fyrri árum. Sömuleiðis liggur fyrir í menntamálaráðuneytinu frumvarp um vernd afhjúpenda sem er alveg full ástæða til að komi fram hér. Að vísu hefur ekkert bólað á því frumvarpi, enda finnst það ekki á málaskrá hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil meina að ef markmiðið er að þróa einhvers konar löggjöf sem á að verja ákveðna aðila þá sé eðlilegt að horfa til reynslu slíkra aðila. Að gera það ekki er í besta falli kjánaskapur. Við verðum að hætta að ganga bara hálfa leið að hlutunum. Það að byggt hafi verið á frekar lélegri danskri löggjöf í þessu tilfelli hjálpar okkur í rauninni ekki með að tryggja að sú afhjúpendavernd sem er nauðsynleg til að afhjúpandi geti starfað eða komið mikilvægum upplýsingum á framfæri um brot á fjármálamarkaði, að þau lög séu með þeim hætti sem vera ber. Við þurfum að hætta svona sértilbúningi og fara að gera hlutina almennilega með heildstæðum hætti.