146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[15:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál sem fjallar um tilkynningar um brot á fjármálamarkaði. Það snertir þætti er varða traust til og aðhald að starfsemi fjármálastofnana en eins og við vitum er alltaf nauðsynlegt að vera á varðbergi í þeim efnum.

Frumvarpið setur reglur og ferla um hvernig unnt sé að tilkynna um brot eða grun um brot. Sérstaklega er gætt að rétti þeirra sem sakaðir eru um brot. Það er auðvitað mikilvægt til þess að koma í veg fyrir misnotkun, t.d. ef tilkynningu er einungis ætlað að koma höggi á ákveðinn starfsmann en ekki upplýsa um brot. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Smára McCarthys hér á undan að mér fannst eins og hann misskildi þessa vernd, þ.e. tilgangurinn má ekki einungis vera sá að koma höggi á starfsmann með tilhæfulausum sökum. Ef tilgangurinn er sá einn að koma höggi á mann með tilhæfulausum ásökunum held ég að ákvæðið gildi.

Hitt er þó sýnu mikilvægara að sá sem ljóstrar upp um brot nýtur sérstakrar verndar og markaðar eru sérstakar leiðir og aðferðir til þess að koma upplýsingum á framfæri og að tilefni þeirra sé rannsakað.

Til að auka gagnsæi og hvetja starfsmenn til að tilkynna um brot undir nafni er gert ráð fyrir að það liggi ljóst fyrir hverjir innan fyrirtækja fái vitneskju um þann sem tilkynnir. Til dæmis er ekki æskilegt að aðrir starfsmenn fyrirtækis fái upplýsingar um þann sem tilkynnti um brot enda getur það fælt starfsmann frá því að tilkynna. Þá verður ekki talið að nauðsynlegt sé að æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækis, t.d. stjórn og framkvæmdastjóri, fái upplýsingar um nafn eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar um þann sem tilkynnti um brot. Allt er þetta til þess fallið að vernda uppljóstrarann.

Þá er líka rétt að benda á ríka vernd til handa uppljóstrara sem tekur til misréttis sem hann kann að verða beittur eða verður fyrir og rekja má til þess að hann tilkynnir um brot eða grun um brot.

Um þetta atriði segir í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Hugtakið „misrétti“ tekur bæði til fyrirvaralausrar uppsagnar með riftun ráðningarsamnings og uppsagnar með samningsbundnum uppsagnarfresti. Einnig er hugtakinu ætlað að ná yfir stöðulækkun, tilfærslu í starfi, opinbera nafngreiningu án samþykkis, einelti, ærumeiðingar, meingerð, ólögmæta mismunun, eða einhverjar aðrar sambærilegar aðgerðir vegna tilkynningar um brot.“

Þetta ákvæði er mjög víðtækt.

Og áfram, með leyfi forseta:

„… málsgreinin felur ekki í sér bann við því að fjármálafyrirtæki víki starfsmanni frá störfum, lækki hann í tign eða færi til í starfi. Ef fjármálafyrirtæki grípur hins vegar til slíkra aðgerða og þær eru bein eða óbein afleiðing af tilkynningu starfsmanns getur fjármálafyrirtækið orðið skaðabótaskylt gagnvart starfsmanninum. Slíkar aðgerðir verða því að byggjast á öðrum ástæðum en þeim að starfsmaður hafi á einhverjum tímapunkti í störfum sínum tilkynnt um brot.“

Virðulegi forseti. Þessi tilvitnun hér á undan sýnir í hnotskurn hversu mikilvægt þetta mál er og þá vernd sem felst í frumvarpinu. Hér er verið að tryggja að ótti um eigin hag komi ekki í veg fyrir uppljóstranir um lögbrot. Í mínum huga er enginn vafi á því að þetta frumvarp felur í sér mikla réttarbót og ég styð því heils hugar að það verði að lögum.