146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

130. mál
[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé hægt að skammast út í starfsmenn ráðuneytisins fyrir þýðingarnar. Eins og kemur fram í framsögunni er þetta nokkuð sem er tekið upp í EES-nefndinni. Ég held að það skipti máli, þó svo að menn geti alveg haft skoðun á því að orðin geti verið skýrari. Ég held að máli skipti að þýðingin sé eins bein og hún getur orðið, þannig að ekki sé um neinn misskilning að ræða.

Eins og kemur fram hjá hv. þingmanni er markmiðið með þessari tilskipun gott. Við þekkjum þó að þrátt fyrir að menn setji slíkar reglur er því miður ekki tryggt að menn komi í veg fyrir allt sem við viljum ekki sjá. Það þekkjum við af fenginni reynslu.

Aðeins varðandi fjöldann. Ég held að það skipti máli að nú tekur hv. utanríkismálanefnd málið fyrir og þá er það þingsins að fara yfir það. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér er talað um fyrirtæki þar sem meðalfjöldi ársverka er 250, ekki 500, og heildareignir 3 milljarðar kr. og hrein velta 6 milljarðar. Það er til viðmiðunar. Ég veit að það er ekki í samræmi við það sem stendur í greinargerðinni, en þetta er eitthvað sem ég tel að hv. nefnd þurfi aðeins að fara yfir og skoða. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum og ég er með hér, og eru ekki í samræmi við það sem kemur þarna fram, eru þetta 80–100 fyrirtæki.

Við þurfum líka að hafa í huga að allar þessar reglur hafa kostnað í för með sér. Það skiptir máli, sérstaklega þegar fyrirtækin er mjög lítil eða meðalstór, og öll fyrirtæki á Íslandi eru þannig, að við göngum ekki þannig fram að við séum með of íþyngjandi reglur, jafnvel þótt markmiðin séu góð. (Forseti hringir.) Markmiðin með eiginlega öllum reglum eru góð, en það skilar sér ekki alltaf í þeim árangri sem við viljum sjá.