146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

130. mál
[15:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kalla mig góðan að hafa náð að fá ráðherra til að víkka umfang reglnanna fjórfalt frá því sem var í framsöguræðunni, bara frá ráðherrabekknum og upp í púlt. Verst að þetta eru ekki nema tvær lotur sem við höfum í andsvörum, annars væri hægt að láta þetta ná yfir enn fleiri fyrirtæki.

Það er rétt sem ráðherrann segir að þetta er á vissan hátt íþyngjandi fyrir fyrirtækin sem þurfa að standa skil á þessum upplýsingum og leysir ekkert öll mál. Fyrir stærri fyrirtæki sem hvort sem er skila ítarlegum ársreikningum er mjög lógískt að nota sömu ferð til að taka saman það sem heitir á máli EES-nefndarinnar, svo ég hafi það rétt, ófjárhagslegar upplýsingar, sem skipta máli. Þótt tilvist þessara skýrslna ein og sér tryggi ekki að fyrirtæki t.d. forðist spillingu og mútur þá er upplýsingaskyldan eitthvað sem er hægt að nota til að koma böndum á slíka starfsemi þegar eftir því er kallað.

Ég bíð þess spenntur að sjá hvernig málið heldur áfram að þróast í næsta innleggi ráðherrans og jafnvel í meðförum nefndarinnar. Það er aldrei að vita nema þetta verði fyrr en varir alltumlykjandi regluverk sem miðar að því, eins og við ráðherra erum greinilega sammála um, að rekstrarumhverfi fyrirtækja, upplýsingaskil þeirra, leiði fram betri fyrirtækjakúltúr hér á landi, að ákveðnar ófjárhagslegar upplýsingar verði til staðar til að sé hægt að meta hvort fyrirtæki eru rekin á góðan hátt, ekki bara fjárhagslegan.