146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hún var ærandi þögnin í gær í sérstöku umræðunum þegar hv. þingmenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar tóku ekki þátt. Það fór ekki fram hjá neinum. Auðvitað veltum við því fyrir okkur hvaða skilaboð væri verið að senda. Var verið að senda hæstv. forsætisráðherra skilaboð? Það er kannski það líklegasta.

En annað mál er: Hver er tilgangurinn og markmiðið með sérstökum umræðum hér á Alþingi? Er ekki einmitt gert ráð fyrir því að þá komi rödd allra þingflokka fram, sjónarmið og áherslur, í málum sem dregin eru fram í sérstökum umræðum? Gæti það gerst, frú forseti, að í dag í sérstöku umræðunum væri hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir ein ásamt hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til andsvara? Gæti það gerst? Fyndist okkur það í lagi að þingflokkar ákveði bara einir og sér hvenær þeir taka þátt í sérstökum umræðum og hvenær ekki?