146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var málshefjandi í gær um skil á skýrslu og leit þannig á að ég jú væri að tala við forsætisráðherra en líka flokksmenn hinna flokkanna. Ég gæti endurtekið spurningar mínar hér og fólk gæti einfaldlega kvatt sér hljóðs og tjáð sig um þetta mál. Ég hlakkaði einmitt til þess að heyra skoðanir þingmanna á því hverjar afleiðingarnar ættu að vera af því að ákveða að skila ekki skýrslunni. Ráðherrar hafa rosalega mikla ábyrgð og eitt af ábyrgðarhlutverkum þeirra er að miðla upplýsingum, ekki bara til þingsins heldur líka til almennings. Siðareglan sem fjallað er um þar fjallar um samskipti við almenning en ekki við þingið.

Spurningarnar eru: Hvað þýðir það ef ráðherrar geta bara sleppt því að fara eftir siðareglum sem þeir setja sér lögum samkvæmt? Er það nokkuð traustvekjandi? Er það ábyrgt? Er það ekki misbeiting valds þegar ráðherra sem stundaði viðskipti í gegnum skattaskjól ákveður að fela skýrslu — fela hana — um viðskipti Íslendinga í gegnum skattaskjól rétt fyrir kosningar sem flýtt var vegna skattaskjólsmála? (Forseti hringir.) Það voru ekki allir í Panama-skjölunum. Slíkir aðilar hafa ekkert um það að segja hvort birta eigi skýrslur eða ekki um slík málefni.