146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að höggva í sama knérunn og þeir sem hafa komið hér á undan mér. Mér þykir þetta mjög óeðlilegt því að einhvern veginn hélt ég að þetta púlt hér, þessi salur sem við erum í, væri hjarta þingsins. Þetta er málstofa okkar þar sem við tölum hvert við annað og eigum samtal við þjóðina svo að mér þykir mjög sérkennilegt þegar tveir af þremur ríkisstjórnarflokkum telja bara enga ástæðu til að taka þátt í tveimur sérstökum umræðum um mál sem gríðarlega miklu skipta.

Mér þykir að við eigum að umgangast þetta púlt af virðingu. Við sáum það á dögunum að hæstv. umhverfisráðherra stóð hér og fór dálítið frjálslega með sannleikann. Hún hefur ekki enn komið hingað og leiðrétt sig en hefur gert það á Facebook. Þetta er staðurinn, þetta er hjartað, þetta er málstofan, hér eigum við að eiga orðastað hvert við annað og ef okkur verður á á þessum stað eigum við að leiðrétta það hér. Við skulum sýna hvert öðru og þinginu sem við erum kosin til virðingu.