146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að skipta mér af því hvaða flokkar tala um hvaða mál og hvenær. (Gripið fram í.) Mér finnst það hins vegar sérkennilegt að þeir nýti ekki tækifærin og mér fyndist það almenn kurteisi við þingið að þeir gerðu það þegar þeir gætu. Ég hef, eðli málsins samkvæmt, skilning á því að það geti orðið messufall í litlum þingflokki en þetta voru tvær umræður.

Ég kem hingað upp til að gagnrýna það að í staðinn fyrir að taka umræðuna hér í þinginu kjósa þau að fara á Facebook og bera félaga mína sem eru hættir á þingi röngum sökum. Þetta gerðist á opinberri Facebook-síðu Bjartrar framtíðar og ég krefst þess að þau biðjist afsökunar á því að fara ekki með rétta hluti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)