146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að það er stuð á þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins í dag. Ég get vel skilið að hann reyni að breiða yfir það að á dagskránni í dag eru ágæt mál, sérstök umræða, sem ég vona að sem flestir taki þátt í, mál frá nefnd og síðan ein fjögur mál frá þingmönnum. Það er með öðrum orðum ekkert frá ríkisstjórninni. Fýla stjórnarandstöðunnar er þá kannski aðallega út af því að hún hefur ekki nóg fyrir stafni, málefnaþurrðin, hún hefur ekkert til þess að veita ríkisstjórninni aðhald við vegna þess að það eru bara þingmannamál á dagskrá. Við tökum vonandi öll þátt í því.

Ég kem upp í annað sinn, frú forseti, vegna þess að ég beindi tveimur fyrirspurnum til forseta og æski þess að fá svar við þeim.